131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Umræðuefni í athugasemdum um störf þingsins.

[11:14]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér aðeins til að staðfesta að ágætissamkomulag hefur verið um það meðal þingflokksformanna og stjórnar þingsins að hægt sé að koma hér upp undir liðnum um störf þingsins með einstök mál. Hæstv. ráðherrum er auðvitað í sjálfsvald sett hvort þeir mæta til þess að svara fyrirspurnum en engu að síður hefur hv. þingmönnum verið gert það kleift að taka upp mál hér undir liðnum um störf þingsins.

Hv. þm. Pétur Blöndal hefur töluvert til síns máls varðandi túlkun á þingsköpum en þetta er þróun sem hefur verið rædd innan þingflokkanna með forsetum. Ég held að það væri skynsamlegt að þingflokkarnir tækju þessa umræðu um þingsköp innan sinna raða. Við skulum ekki eyða löngum tíma hér í að kýta um þetta, við getum rætt það innan þingflokka.

Virðulegi forseti. Af því að ég ræði hér um fundarstjórn forseta legg ég til að við göngum til dagskrár.