131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Norræna ráðherranefndin 2004.

516. mál
[12:24]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var góð ræða hjá hv. þingmanni og ég ætla aðeins að vísa aftur til upphafs hennar. Ég held að marga hafi rekið nokkuð í rogastans við hvaða skilaboð hv. þingmaður kunni að hafa verið að gefa en honum var tíðrætt um ástarjátningar Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar í Evrópumálum og þeirrar merkilegu yfirlýsingar sem fram kom í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur þegar hún gerði að umtalsefni og efaðist um skilaboð hæstv. utanríkisráðherra í túlkun hans á Evrópustefnu Framsóknarflokksins og taldi jafnvel felast í henni skilaboð til Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs um stjórnarsamstarf og jafnvel nýjar alþingiskosningar eða stjórnarmyndunarviðræður á næstunni, hvernig sem ber að túlka það.

Ég vildi spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson sem í síðustu kosningum og fram til þessa rak mjög eindregna pólitík um velferðarstjórn til vinstri og deili ég þeirri skoðun hans að menn eigi að stefna að því og Vinstri hreyfingin — grænt framboð gekk mjög hart fram í því. En ég vil spyrja hvaða skilaboð felist í því að hann boði hér gömlu stefnu Sjálfstæðisflokksins frá 1990 í Evrópumálum þar sem átti að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið en ekki EES-samning eða ganga þar inn. Er hann á einhverju ferðalagi frá velferðarstjórn til sögulegra sátta við Sjálfstæðisflokkinn, svo vísað sé til frægs leiðara í Morgunblaðinu sem Styrmir Gunnarsson held ég að hafi skrifað fyrir margt löngu um sættir Alþýðubandalags og Sjálfstæðisflokks? Er hv. þingmaður að senda þau skilaboð til kjósenda sinna og til almennings að næstu skref, næstu bandalög og næstu línur í íslenskum stjórnmálum liggi þannig að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir myndi einhvers konar hræðslubandalag gegn Evrópusambandsaðild og þá væntanlega gegn Samfylkingu, Framsókn og Frjálslyndum sem væru þá Evrópusinnaðri?