131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:55]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg örugglega rétt hjá hv. þingmanni, og enginn held ég hér í umræðunum hefur efast um það, að þeir aðilar sem koma að rekstri þessa nýja háskóla geri það af góðum hug. Það held ég að sé ekki nokkurt vafamál.

Hins vegar staðfesti hv. þingmaður nákvæmlega það sem ég var að segja áðan, að það hafi verið vilji rekstraraðilanna og ég hef sagt áður að ég telji eðlilegt að þessir aðilar hafi viljað hafa þetta form á. Hv. þingmaður staðfesti að engar leiðbeiningar eða óskir hefðu komið fram frá fulltrúum almannavaldsins um þessa samningagerð. Það er þar af leiðandi staðfesting á því sem ég hef haldið hér fram, að þetta hafi verið hugur þeirra sem að þessu máli komu en síðan hafi skort algjörlega á nokkurn áhuga, leiðbeiningar eða yfir höfuð kröfu um það í hvaða formi þetta væri rekið.

Hv. þingmaður segir að það eigi að reka þessar stofnanir án hagnaðar. Hefðin í okkar landi er sú að sjálfseignarstofnanir séu reknar þannig. Ef hins vegar einhver galli er á sjálfseignarstofnunarforminu er eðlilegt að menn komi með tillögur um einhverjar breytingar á lögum sem um það gilda. Við höfum ekki heyrt eitt einasta atriði um það og hv. þingmaður staðfestir í raun og veru að það form sé hið besta.