131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Upplýsingaskylda fjármálastofnana til skattstjóra.

[15:14]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Auðvitað erum við öll í þessum sal, eins og margoft hefur komið fram, sammála um nauðsyn þess að gera allt sem gera þarf til að koma í veg fyrir skattsvik í landinu. En það er ekki endilega bara þau sem hér er verið að berjast gegn eða eina málið sem þetta snýst um. Það eru önnur sjónarmið í þessu efni líka en ég held hins vegar að það sé mjög óeðlilegt að gera því skóna að núverandi ákvæði, eins og þau eru í lögunum, séu sérstaklega hugsuð til að koma í veg fyrir að þeir sem eiga aura í bönkunum komist undan því að greiða skatt. Það er ekki hugsunin og ekki meiningin en það er auðvitað, eins og ég hef margoft sagt í þessum ræðustól, sérstakt verkefni okkar að koma í veg fyrir skattsvik og draga þá til ábyrgðar sem þau stunda. Ég vek athygli á aðgerðum skattrannsóknarstjóra nú fyrir helgina hvað þetta varðar og lýsi ánægju minni með það sem þar var gert til þess að draga fram hverjir það eru sem standa ekki eðlilega að rekstri sínum og níðast þannig á þeim sem hafa allt sitt á hreinu í samkeppni við þá sem ekki gera það.