131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Sala Símans og einkavæðingarnefnd.

[13:42]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um sölu Símans eru með umdeildari ákvörðunum sem þjóðin stendur frammi fyrir. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar hefur ítrekað, nú síðast í skoðanakönnun með gríðarlega stóru úrtaki, lýst sig vera mjög andvígan þessari sölu og þeir teljast kannski á fingrum annarrar handar, framsóknarmennirnir sem styðja söluna. Samt á að keyra hana fram með þessum hætti. Menn setja undir sig hausinn og brjóta þingræðislegar reglur. Efnahags- og viðskiptanefnd er hunsuð og einkavæðingarnefnd sem starfar á ábyrgð forsætisráðherra telur ekki ástæðu til að hitta nefndina til að heyra sjónarmið hennar eða skiptast á skoðunum, vill ekki einu sinni til að heyra sjónarmið nefndarmanna.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. forseta: Er það ekki forseti þingsins, forseti allra þingmanna, sem á að grípa í taumana? Hér er traðkað á eðlilegum störfum og rétti þingsins til að koma að og fylgjast með málum í umdeildasta máli sem nú er í höndum ríkisstjórnarinnar, dapurlegrar ríkisstjórnar sem ætlar sér meira að segja að ganga þvert gegn vilja þjóðarinnar með því að selja Símann og fórna þeim þjóðarhagsmunum sem fjarskiptakerfið er. Er það ekki forseta þingsins að grípa í taumana og kalla eftir því að ráðherrar og nefndir á vegum ráðherra sem heyra undir þingið hlýði þinginu?

Ég krefst þess að forseti þingsins láti þetta mál til sín taka ef hæstv. forsætisráðherra hefur ekki getu eða vilja til að störf þingsins gangi eðlilega og þingið fái metinn lögvarinn rétt sinn til að hafa afskipti af þessu máli.