131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Sala Símans og einkavæðingarnefnd.

[13:47]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég verð að byrja á að taka fram að ég varð við óskum nokkurra hv. þingmanna í efnahags- og viðskiptanefnd um að ræða málið. Það er því allt ráðherraræðið. Ég bar það ekki undir einn eða neinn, ég tók þá ákvörðun sjálfur að fá upplýsingar um málið.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði að þeir hefðu fengið tillögu um að senda bréf, en hann verður að geta þess að þetta er náttúrlega tveggja manna tal. Ég bar það undir hann að einkavæðingarnefnd teldi sig ekki geta tjáð sig og sæi þar af leiðandi ekki tilganginn í að mæta. Þá sagði hann: Ja, við gætum upplýst hana og komið sjónarmiðum okkar að.

Ég bar það undir einkavæðingarnefnd og þeir sögðu að menn gætu sent þeim bréf með hugmyndum og tillögum ef þeir vildu koma sjónarmiðum sínum að.

Hv. þm. Kristján L Möller talaði um ráðherraræði. Það er ekki meira en það að í þrígang hefur hv. efnahags- og viðskiptanefnd rætt sérstök mál sem eru athyglisverð og fengið upplýsingar um það sem ekki tengjast endilega beint einstökum þingmálum. Ég hélt að það væri til bóta og styrkti stöðu þingsins og hefur ekkert með ráðherraræði að gera.

Málið var rætt í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun, við fengum mjög góðar upplýsingar frá forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar og ég held að sá fundur hafi verið jákvæður.