131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Mælendaskrá í athugasemdum um störf þingsins.

[14:05]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt sem fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra, iðulega vilja alþingismenn að ráðherrar svari þeim spurningum sem til þeirra er beint. Þetta er þó ekki einhlítt í þeirri umræðu sem stofnað er til hér á Alþingi. Stundum óska menn eftir svörum frá ríkisstjórninni og einstökum ráðherrum. Í öðrum tilvikum kunna menn að vilja koma eigin sjónarmiðum á framfæri.

Ég hafði t.d. heyrt afstöðu hæstv. forsætisráðherra til þessa máls. Ég var honum ósammála. Ég hafði fyrir mitt leyti t.d. ekki í hyggju að beina til hans frekari spurningum. Ég vildi hins vegar koma mínum eigin sjónarmiðum á framfæri. Stjórnarandstaðan hafði óskað eftir því og gerði það. En þetta er dæmigert fyrir viðhorf og afstöðu ráðherra. Ríkisstjórnin lítur svo á að hér séu annars vegar þeir sem valdið hafa og hins vegar hinir sem hafa ekkert annað til málanna að leggja en beina spurningum til valdamanna. Þannig á Alþingi ekki að starfa. Við eigum að vera hér jafnrétthá til að koma sjónarmiðum okkar á framfæri.