131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Ráðning aðstoðarmanna þingmanna.

466. mál
[12:22]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og þakka hæstv. forsætisráðherra undirtektirnar. Ég tek alveg heils hugar undir að það sé mjög tímabært að fulltrúar allra flokka á þingi fari yfir þessi mál og kanni í hvaða farveg verði best að þau þróist.

Það er tvennt ólíkt hvort við erum að tala um fjárframlög til einstakra flokka og starfsemi þeirra eins og hæstv. forsætisráðherra gerði grein fyrir og hvernig síðan flokkarnir deila því í starf sitt út um land og svo hitt, að tillaga þessarar nefndar fjallaði á mjög ákveðinn hátt um hvernig skyldi byggja upp eða styðja við störf þingmanna á vegum þingsins úti í hinum einstöku kjördæmum. Ég man það frá umræðunni á þingi þegar þessi lög voru afgreidd um kjördæmabreytinguna — ég taldi hana ranga og tel það enn. En þetta er gert — að þá kom einmitt fram í máli allmargra þingmanna að þeir lögðu áherslu á þessi atriði, hvernig væri hægt að byggja upp og standa að störfum þingmanna m.a. úti í hinum stóru landsbyggðarkjördæmum og hefur það vafalaust getað haft áhrif á afgreiðslu málsins.

Í tillögum nefndarinnar sem ég vitnaði til er einmitt lagt til að það sé komið upp, og beinlínis af hálfu þingsins, starfsaðstöðu þingmanna úti í kjördæmunum og að þetta séu starfsmenn þingmanna og þingsins. Ég tel í ljósi yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra mjög mikilvægt að fara aftur yfir það hvernig þessu er fyrir komið í öðrum löndum, eins og nefndin gerði þá og byggði sínar tillögur á, því það er alveg ljóst að mikilvægt er að styrkja lýðræðið, styrkja þingræðið og styrkja störf þingmanna og tengsl þeirra og störf úti í kjördæmunum með því að bæta starfsaðstöðuna eins og mér heyrist allir vera sammála um. (Forseti hringir.) Ég tek heils hugar undir yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra.