131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Söluandvirði Steinullarverksmiðjunnar.

595. mál
[12:52]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Sala á steinullinni og sala á Rafveitu Sauðárkróks eru einir dapurlegustu hlutir sem ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn hafa knúið fram gagnvart Skagfirðingum. Þegar Steinullarverksmiðjan hafði verið höfð af þeim, fyrirtæki sem var stofnað af sveitarfélaginu, ríkinu og fjölda heimamanna, á annað hundrað að mig minnir, var gengið á þessa heimamenn, litlu hluthafana, og þeir knúnir til að fara út úr fyrirtækinu með sína hluti. Í stað þess hefði mátt nýta þetta fyrirtæki til að efla og byggja upp starfsemi í Skagafirði, nota styrk þess til þess en í staðinn var það skuldsett fyrir fleiri hundruð millj. kr. og er orðið mun veikara en ella. Sem betur fer starfar það þó enn og gerir vonandi áfram.

Ekki var síður með Rarik, Rafveitu Sauðárkróks, sem líka var höfð af Skagfirðingum með þessum hætti. Ef eitthvað er hægt að frábiðja sér eru það svona (Forseti hringir.) afskipti Framsóknarflokksins, afskipti ráðherra hans af málefnum Skagfirðinga.

(Forseti (JBjart): Enn og aftur vill forseti beina því eindregið til þingmanna að þeir virði þennan þrönga tímaramma sem er í stuttum athugasemdum.)