131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Söluandvirði Steinullarverksmiðjunnar.

595. mál
[12:53]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Í framhaldi af svari hæstv. ráðherra áðan hvarflaði að manni að kannski væri ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvort vænta mætti að við sölu á öðrum fyrirtækjum ríkisins yrði farið eins með söluandvirðið og gert var við þessa sölu. Það eru ekki mörg fyrirtæki eftir í eigu ríkisins en þó kemur mér í hug fyrirtæki eins og Hitaveita Suðurnesja sem eingöngu hefur búið til efnahag sinn með viðskiptum við þá sem lifa og starfa á Suðurnesjum. Kemur til greina, ef ríkið ætlaði sér að selja hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja, að helmingi þess söluandvirðis yrði varið á sama hátt á Suðurnesjum eins og lögin um sölu Steinullarverksmiðjunnar kváðu á um að gert yrði í Skagafirði?