131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Kostnaður við breikkun Suðurlandsvegar.

574. mál
[15:15]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi fór vel yfir umferðarþungann sem er á þessum vegi og hvernig hann hefur aukist undanfarin ár. Umferðarþunginn er eitt þegar við ræðum um vegaframkvæmdir og umferðaröryggismál eru annað. Það má segja að á undangengnum árum hafi verið unnið markvisst að því að eyða svokölluðum svörtum blettum í vegakerfinu og gengið nokkuð vel. Samgönguyfirvöld hafa verulega tekið til hendinni þegar kemur að umferðaröryggi.

Þegar við horfum á Suðurlandsveginn hljótum við að hafa þetta í huga og velta fyrir okkur þegar við sjáum þann þunga sem orðinn er á þeim vegi og þau slys sem einnig hafa orðið þar hvort ekki sé að því komið að bæta þennan veg verulega frá því sem nú er. Ég vona satt að segja að hæstv. samgönguráðherra sé mér sammála þegar hann fer í samgönguáætlun um að fáar framkvæmdir sé nauðsynlegri en sú sem hér um ræðir.