131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Áfengislög.

74. mál
[14:59]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er kannski rétt að leiðrétta hv. þm. Guðmund Hallvarðsson um tvö atriði. Hið fyrra varðar það að Styrmir Gunnarsson og félagar hans risu upp snemma á 7. áratugnum og börðust gegn því að eina sjónvarpsstöðin sem væri með útsendingar á landinu væri hersjónvarp Bandaríkjamanna. Þetta var nokkrum árum áður en íslenska sjónvarpið varð að veruleika og er oft talið vera undanfari íslenska sjónvarpsins. Þeir voru ekki 50, þeir voru 60, voru kallaðir 60-menningarnir. Ég held að tími sé kominn til þess að á næsta afmæli þessa máls, ég hygg að það hafi verið 1963 án þess að þora að fara með það, ætli það verði þá ekki árið 2013, verði haldið sérstaklega upp á það enda eru þá kannski fáir eftir í hópnum, þó vonandi t.d. Styrmir Gunnarsson. Þetta var hugrekki af hans hálfu á sínum tíma og sýnir hvað sá ágæti ritstjóri er menningarlega sinnaður og vígdjarfur þegar hann nær vopnum sínum. Það hefur hann t.d. gert í leiðara Morgunblaðsins í dag sem er holl lesning fyrir þá stjórnarliða sem hér sitja.

Hitt atriðið er það að þetta mál fjallar ekki um það að banna áfengisauglýsingar, forseti. Hér er ekki verið að leggja til að áfengisauglýsingar verði bannaðar, það er misskilningur hjá Guðmundi Hallvarðssyni. Staðan er sú að áfengisauglýsingar eru bannaðar og ef hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson vill breyta því á hann að leggja fram frumvarp um að breyta því eða einhvers konar þinglega tillögu eða eitthvert mál þar að lútandi. Hér er einungis verið að laga frumvarpið, koma í veg fyrir holu sem menn hafa hlaupið með peningana sína í gegnum með þeim afleiðingum, einkum vegna þess að hæstv. dómsmálaráðherra heldur hlífiskildi yfir þeim, að hér eru auglýsingar á áfengi grimmari, meiri og hamslausari en sennilega í nokkru öðru landi í kringum okkur, norðan Alpafjalla og sennilega suður að Miðjarðarhafsströnd, að ég tali ekki um landið þar fyrir sunnan þar sem áfengi er bannað og þarf ekki að setja sérstakt auglýsingabann.