131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framtíðaruppbygging bráðaþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[15:49]

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Krafan um uppbyggingu og rekstur bráðaþjónustu á Suðurnesjum byggir á því að öryggi íbúanna sé sem best tryggt ef slys ber að höndum eða fæðingu sem krefst keisaraskurðar. Þessi þjónusta krefst annars vegar skurðstofu og annars búnaðar og tækja sem svara kröfum tímans en sú aðstaða þarf vitaskuld líka að svara kröfum tímans vegna þjónustu og verka sem eru unnin á sjúkrahúsinu á dagvinnutíma. Hins vegar krefst bráðaþjónusta skurðstofuvaktar utan hefðbundins dagvinnutíma allan ársins hring. Lágmarksáhöfn á skurðstofu er svæfingarlæknir og svæfingarhjúkrunarfræðingur, skurðlæknir og einn eða tveir skurðhjúkrunarfræðingar auk fæðingarlæknis. Allur þessi hópur er á bakvakt og ef þessi hópur allur eða hluti hans er búsettur utan þjónustusvæðis stofnunarinnar og jafnvel í höfuðborginni eða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu er ekki hægt að halda því fram að öryggi íbúa Suðurnesja sé best tryggt með rekstri bráðaþjónustu við heilbrigðisstofnunina. Það tekur jafnlangan tíma ef ekki lengri fyrir bakvaktarstarfsmann að keyra til Keflavíkur úr Reykjavík en fyrir sjúkraflutningabifreið að aka þaðan og til Reykjavíkur.

Að mati margra er nú orðið tímabært, m.a. vegna mikilla samgöngubóta sem við höfum ráðist í, að skilgreina nágrannasveitarfélögin Akranes, Borgarfjörð, Árborg og Suðurnesin með höfuðborgarsvæðinu sem eitt íbúa-, atvinnu- og þjónustusvæði og þar með talið bráðaheilbrigðisþjónustusvæði og láta öryggi íbúanna og hagkvæmni ráða því hvar bráðaþjónusta er veitt frekar en sveitarfélagamörkin.

Ég velti því fyrir mér, frú forseti, og það eru aðeins vangaveltur mínar, hvort öryggi íbúa þessara svæða væri ekki betur tryggt og jafnframt hagkvæmara til lengri tíma litið með rekstri þyrlu sem þjónustaði þessi svæði en að halda úti bráðaþjónustu á bakvöktum meðan það eru einungis starfsmenn utan þjónustusvæðis þessarar stofnunar sem geta sinnt henni.