131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framtíðaruppbygging bráðaþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[15:56]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim þingmönnum sem þátt hafa tekið í umræðunni fyrir innlegg þeirra.

Ég verð þó að segja að svör hæstv. ráðherra voru afar óljós svo ekki sé meira sagt. Ef ég reyni að taka þau saman er niðurstaðan sú að hér sé á ferðinni góður vilji en engir fjármunir. Ráðherra svaraði í raun ekki nema einni spurningu af þeim þremur sem ég lagði fyrir hann, fyrstu spurningunni um viðbótarkostnaðinn við að reka þessa þjónustu allan sólarhringinn allt árið. Hann er um 40 millj. kr. á ári.

Við spurningu tvö, um hvort hæstv. ráðherra telji nauðsynlegt að reka samfellda vaktþjónustu á skurð- og svæfingarsviði allan sólarhringinn, og spurningu þrjú, um ef svo væri, ef hann teldi það nauðsynlegt, hvenær mætti vænta að slík þjónusta kæmist á, heyrði ég ekki svar.

Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að Suðurnes liggi nálægt Landspítalanum þegar verið er að tala um málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Ég verð að segja eins og er að þegar maður hlustar á umræður á Alþingi um að það sé afar langt frá Reykjavík til Keflavíkur fyrir fullfrískt fólk að keyra í flug er ankannalegt að heyra þá þau rök að það sé afar stutt frá Keflavík til Reykjavíkur þegar keyra þarf dauðveikt fólk á spítala. Þessi rök halda að mínu viti ekki og geta ekki verið gild í málinu.

Heimamenn á Suðurnesjum héldu, þegar hæstv. ráðherra skrifaði undir yfirlýsingu í júní 2004, að nú væri björninn unninn, menn héldu að þetta þýddi að verið væri að staðfesta þá framtíðarsýn sem fram kemur í skýrslu starfshópsins sem hér hefur verið talað um og nú mundi hún komast til framkvæmda. Eftir að hafa hlýtt á hv. formann heilbrigðisnefndar, Jónínu Bjartmarz, get ég ekki sagt að vonir mínar hafi vaknað um það að við þetta yrði staðið. Ég treysti þó á hæstv. heilbrigðisráðherra, að hann standi við þá undirskrift sem hér er talað um og að þetta verði að raunveruleika.