131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[17:03]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og góðar undirtektir við frumvarpið. Ég vil halda mig við nokkrar fyrirspurnir sem beint hefur verið til mín í umræðunni.

Sú fyrsta var um endurgreiðslur vegna tannréttinga. Við höfum látið það vera forgangsverkefni að endurgreiða vegna klofins góms. Þar er endurgreiðslan 95% og var síðasta breytingin sem gerð var á því sviði, en mér hefur verið tjáð að sem betur fer sé samkeppni mjög að aukast varðandi þessa tegund tannlækninga og verðið fari lækkandi. Það eru góð tíðindi þó að við höfum ekki farið í frekari niðurgreiðslur á því sviði.

Komið hefur verið inn á útgjaldaþáttinn í frumvarpinu, hvað þetta þýðir mikil útgjöld. Eins og bent er á í frumvarpinu eru útgjöldin byggð á varfærnu mati Tryggingastofnunar ríkisins um að um þúsund manns muni sækja þjónustuna árlega. Heimildir sem við höfum eru, eins og fram kemur, 45 millj. Hins vegar er svigrúm upp á 20 millj. í viðbót vegna þess að við reiknum með því að þeir sem hafa sótt sér þjónustu og fengið laus tanngervi hingað til muni breyta áherslum sínum. Auðvitað verður að fylgjast með útgjaldaþróuninni og þær heimildir sem við höfum eru í frumvarpinu. Það hefur verið farið yfir það en við þurfum að fylgjast með því hvernig þetta reynist. Að sjálfsögðu tek ég undir að mál fara til nefndar til að skoða þau og sjálfsagt að heilbrigðis- og trygginganefnd fari yfir áætlanirnar sem liggja til grundvallar.

Varðandi börn að 18 ára aldri eru þau tryggð í 33. gr. laganna. Þau voru þar inni og eru þar inni þannig að það er ekki breyting á nema varðandi aldurinn. Ég var einnig spurður eftir því með hvaða hætti eftirlit væri með efni til tannviðgerða. Eftirlitið fer eftir norrænum gæðastaðli sem við notum í þessu sambandi og er ítarlegra eftirlit en gildir um iðnaðarvörur. Aðferðin við eftirlitið þarf auðvitað að vera í lagi, ég tek undir það með hv. 8. þm. Norðvest.

Varðandi tannheilsu barna sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði eftir er það rétt að ég svaraði því að við þyrftum að sjá niðurstöður rannsókna varðandi tannheilsu barna. Þeirri rannsókn er ekki lokið, hún stendur yfir, þannig að við bíðum eftir þeim niðurstöðum.

Spurt var um þjónustu hins opinbera á Norðurlöndum varðandi tannheilsu. Greiðsla hins opinbera er svipuð á Norðurlöndum en reikningarnir eru miklu hærri hér. Varðandi greiðsluhlutfallið og taxta tannlækna er álagning tannlækna frjáls og þess vegna er greiðsluhlutfall Tryggingastofnunar í tannlækningum misjafnt.

Ég ætla ekki að blanda mér í almenna skattaumræðu í málinu. Það hefur verið bærilegt samkomulag um að heilbrigðiskerfið sé borgað af skatttekjum. Hvort það kemur réttlátt niður eða ekki er mjög stórt mál sem ég ætla ekki að leiða til lykta í umræðunni en í þessu máli tel ég að verið sé að stíga gott skref. Við erum að færa greiðsluþátttöku í tannlækningum sem þegar er fyrir hendi til nútímahorfs og mér finnst ekki ástæða til þess að greiða niður versta fyrirkomulagið í tannviðgerðum aldraðra og greiða ekki niður nútímalækningar á þessu sviði. Frumvarpið er því lagfæring að þessu leyti og líka mikilvæg réttarbót. Ég endurtek að það er auðvitað sjálfsagt að heilbrigðis- og trygginganefnd skoði málið og fari ofan í forsendur þess. En ég vona að málið nái fram að ganga og verði afgreitt á þessu vorþingi.