131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

137. mál
[16:22]

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að draga beri úr launamun kynjanna. Ég held að það sé sameiginlegt markmið okkar að menn eigi að fá jafnhá laun fyrir sambærileg störf burt séð frá því hvort viðkomandi er karl eða kona. En ég hef aldrei heyrt það áður að birting skattskráa og álagningarskráa einstaklinga hafi nokkuð með þennan launamun að gera. Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri það.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að ég er tilbúinn til þess að setjast yfir hugmyndir með honum til þess að skoða hvort hægt sé að fara aðrar leiðir og nýjar til þess að jafna þennan launamun en þær sem hafa verið farnar á síðustu árum og áratugum. En ég held að birting skattskráa hafi ekkert með þetta að gera. Ég bendi á að þegar þessar skattskrár eru lagðar fram þá er nú ekki eins og múgur og margmenni keyri niður á Skattstofu til þess að renna í gegnum skattgreiðslur einstaklinga. Það er ekki þannig. Við vitum alveg hvernig þessar skattskrár eru notaðar. Þær eru notaðar til þess að birta lista í fjölmiðlum yfir tekjur nafngreindra einstaklinga, yfirleitt toppanna í íslensku atvinnulífi og hinna og þessara. Síðan er gefið út tiltekið blað í Reykjavík um tekjur svona 3.600 Íslendinga. Að öðru leyti held ég að þessar upplýsingar séu ekki notaðar í kjararannsóknir eða rannsóknir á ástæðum þess að launamunur kynjanna sé til staðar. Ég hygg að allt aðrar ástæður liggi þeim mismun að baki og að skattskrárnar hafi ekkert með það að gera.