131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

137. mál
[17:05]

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Samþætting og aftur samþætting er eitt virkasta úrræðið í jafnréttisbaráttunni. Það er lykilorð. Með því að nota þá aðferð, samþættingu, getur maður varpað ljósi á öll þingmál og skoðað í því samhengi, samhengi jafnréttisbaráttunnar. Það var ég að gera, varpa ljósi jafnréttis á frumvarpið, bregða því undir það ljós og athuga hvort það gagnaðist jafnréttisbaráttunni eða ekki. Niðurstaða mín var sú að svo væri ekki vegna þess að þá væri eitt vopnið til að vinna gegn kynbundnum launamun tekið burt. Ég sagði ekki að það væri mikilvægasta vopnið en ég sagði að það væri eitt vopnið í því vopnabúri.

Ég vil líka ítreka, vegna fullyrðinga sem fram hafa komið um að það ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt sem hér er til umræðu sé brot á stjórnarskránni, að svo hefur ekki verið talið, ella væri löngu búið að nema það úr lögum. Hins vegar heimilar ekkert í lögum kynbundinn launamun og ekkert í mínum orðum mátti skilja á þann veg að ég teldi hv. þm. fylgjandi kynbundnum launamun. Ég eggjaði hann hins vegar til dáða í þeirri baráttu og taldi að hann ætti fremur að gera það að forgangsmáli og áhersluatriði en að fylgja þessu máli eftir. Hv. þingmaður lýsti því yfir að hann væri tilbúinn til þess og ég fagna því.

Svo vil ég gera athugasemd við það sem hv. þingmaður sagði um kjararannsóknarnefnd. Hún finnur mun á, þ.e. rannsakar heildartekjur kynja og þar fram eftir götunum, gerir meðaltalsrannsóknir en skoðar ekki einstaklings- og kynbundinn launamun.