131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar.

[14:19]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að efast um að nokkur stjórnmálaflokkur hér á þingi hafi farið eins rækilega í saumana á Evrópumálum og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur gert. — Nú hlæja menn.

Þegar raforkutilskipunin kom til umræðu hér voru það þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem stóðu vaktina, hinir voru allir sofandi og tóku ekki einu sinni til máls í umræðunni. Það var löngu síðar sem þeir vildu þá Lilju kveðið hafa og snerust á sveif með okkur, m.a. varaformaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. (Gripið fram í.) Þetta er bara staðreynd. Ég spyr: Hve margir þingmenn hafa lagst yfir þjónustutilskipun Evrópusambandsins sem nú er í smíðum? Við höfum gert það mjög rækilega og þannig gæti ég nefnt fjölmörg önnur dæmi. — Ég held að menn ættu að spara þennan hlátur.

Eðlilegt að Evrópumálin séu á dagskrá, segir hæstv. forsætisráðherra. Það er alveg rétt, en menn verða þá að tala þannig að skiljist hvað þeir meina, að ekki þurfi pólitíska djúpsálarfræðinga til að lesa í yfirlýsingar þeirra. Sú er raunin með það sem kemur frá Framsóknarflokknum nú um stundir, mjög mótsagnakenndar yfirlýsingar þótt allir finni að hæstv. forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins vilji helst halda sem fyrst til Brussel. Hann veit hins vegar að kjósendur Framsóknarflokksins munu ekki fylgja honum þangað og þess vegna er þessi loðmulla í boði.

Menn hafa tvær nálganir. Annars vegar hina statistísku eins og Samfylkingin, sem telur bara tilskipanirnar og segir: Það eru 4.000 tilskipanir og þess vegna hljótum við að fara til Brussel og hafa áhrif. Þetta er tittlingaskítur sem menn sameinast um, embættismenn semja um og engar deilur eru um. Málin snúast hins vegar um hin stóru lýðræðislegu spursmál, hvernig við eigum að skipuleggja samfélag okkar. Þá er spurningin ekki bara sú: Eigum við að fara í Evrópusambandið eða standa fyrir utan? Við þurfum að skoða (Forseti hringir.) EES-samninginn líka og íhuga rækilega (Gripið fram í.) hvort segja eigi honum upp, t.d. ef þjónustutilskipunin nær óbreytt fram að ganga.