131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:50]

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það sem er til umræðu hér, verðtryggingin á fjárskuldbindingum, hefur lengi verið á dagskrá. Menn hafa rætt um það allar götur frá því að þeir sáu fram á að verðbólgan gæti hjaðnað hér, við kæmumst út úr þeim voða sem vorum í, að það ætti að afnema hana.

Ég er einn af þeim sem hafa verið þeirrar skoðunar að æskilegt sé að afnema verðtrygginguna ef þess er kostur. Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til að skipuð verði nefnd Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans, Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja og aðila vinnumarkaðarins og þeir verði látnir athuga þetta.

Ég tel að allt sem er lagt til hér um að skoða og athuga liggi nú þegar fyrir. Til eru mjög margar lærðar ritgerðir um þetta fram og til baka og það liggur alveg fyrir hvaða álit þeir muni hafa sem eiga að skoða þetta, þ.e. fyrst og fremst Seðlabankinn og Samtök banka verðbréfafyrirtækja. Þeir munu koma með niðurstöðu sem mun vera á einn veg. Þrátt fyrir ýmsa kosti sem því eru fylgjandi að afnema þetta þá leggja þeir til að það verði ekki gert. Vitnisburður allra þessara aðila liggur alveg fyrir. Þeir telja það of áhættusamt og það mun verða niðurstaða nefndar eins og þeirrar sem hér er lagt til að verði skipuð. Það er alveg vitað mál.

Ef menn ætla í alvöru, herra forseti, að afnema eða reyna að afnema verðtryggingar og fara í það af alvöru eða a.m.k. minnka þær verulega þá er það gert með því að láta reyna á hvort pólitískur vilji sé til þess á Alþingi. Mér er nær að halda að hann sé nú óðum að skapast. Ég er ekki frá því að það geti myndast nokkuð þverpólitísk samstaða um að stefna í þau markmið, a.m.k. þannig að verðtryggingin væri þá einkaréttur ríkisins á ríkisskuldabréfum þannig að ríkið hefði þá þann kost umfram aðra.

Eins og ég sagði áður, herra forseti, hef ég verið þeirrar skoðunar að við ættum ekki að halda því áfram og líta á það sem náttúrulögmál að vera með verðtryggingarnar vegna þess að verðtryggingin var á sínum tíma sett til þess að við gætum lifað með verðbólgu— sá var tilgangurinn — alveg eins og við settum lög um verðbólguuppgjörin í fyrirtækjunum. Það var bara aðferð til að fyrirtækin gætu lifað við verðbólgu. Við erum búin að afnema uppgjörin og ég tel að það væri mjög hollt efnahagslífinu ef þessi verðtrygging minnkaði verulega. Ef hún væri í mjög miklu minni mæli en hún er þá mundu menn haga sér allt öðruvísi en þeir gera. Það sem mundi gerast fyrst og fremst er — það vitum við — að þá mundu lán styttast og vextirnir mundu bíta. Vextirnir virka ekki í mikilli verðtryggingu. Þeir hafa lítil áhrif. Þeir mundu hafa mikil áhrif um leið og við tækjum verðtrygginguna út.

Þrátt fyrir þetta vil ég segja, herra forseti, að ég tel nú brýnna í dag að taka annan vinkil á þessa umræðu um verðtrygginguna en þennan, þ.e. fyrst og fremst að reyna að átta okkur á því hvernig við mælum þessa verðtryggingu. Ég tel það mjög brýnt að skoða hvaða mælistiku við setjum á hana, þ.e. hvernig við förum að þessu. Nú stöndum við frammi fyrir ímyndaðri verðbólgu Seðlabankans sem fyrst og fremst stafar af verðbólgu í eignum, ekki í almennu verðlagi. Þetta er allt að elta skottið á sjálfu sér.

Ef menn vilja og trúa því að húsnæðisliðurinn eigi að vera í þessari mælingu þá ættu þeir með sömu rökum að hafa hlutabréfamarkaðinn og verð á hlutabréfum í þessum mælingum líka. En um leið og menn hugsa það veit ég að fáum eða engum mundi hugnast slíkt. Því er mjög brýnt að menn horfist í augu við hvað þeir eru að gera og að við förum í það nú þegar og það með lagabreytingum að hætta að mæla þetta þann veg sem við gerum. Það er stórhættulegt sem við erum að gera og þetta er meginorsökin fyrir því að peningastjórnin í landinu er núna stödd í þeim hafvillum sem menn mega gera sér grein fyrir.

Seðlabankinn hækkar stýrivexti vegna þess að hann metur það svo að verðþensla sé í landinu. Verðþenslan er eingöngu í eignum og þeir hækka aftur stýrivextina koll af kolli þannig að gengið hækkar og hækkar. Það er núna komið í, að ég held, 107. Ég held að það hafi verið 107 árið 2000 þegar þetta hrundi nú síðast. Við erum því að stefna hér í mjög miklar ógöngur einmitt vegna þess hvernig við mælum þetta. Ef við höldum svona áfram þá stafar efnahagslífinu mjög mikil hætta af þessu.

En það er hollt fyrir bankana, verðbréfafyrirtækin, að átta sig á því að með verðtryggingunni — og þess vegna vilja þau öll hafa verðtryggingu — eru þau í skjóli. Þau þurfa ekki að taka áhættu eins og þau yrðu að gera ef dregið yrði verulega úr þessu sem ég held að sé rétt. En þau vilja það ekki. Þau munu koma með rök gegn því aftur og aftur og mæla gegn því og Seðlabankinn mun verða þar fremstur í flokki. Þetta megum við vita.

Við höfum gengið mjög hart fram í því að afnema verðtryggingar á ýmsum öðrum þáttum eins og í launamálum. Það er algjörlega bannað að verðtryggja laun. Vegna hvers? Vegna þess að það eltir sjálft sig. Það eltir skottið á sjálfu sér og stóð einmitt fyrir þeirri spennu og þeirri verðmyndun sem leiddi okkur á glapstigu í efnahagsmálum. Eins hefur þetta sömu áhrif. Þetta er eins og gormur. Seðlabankinn er núna að elta skottið á sjálfum sér, upp, upp, upp, eins og gormur. Þannig mun það halda áfram þar til gengið hrynur. Það eina sem ekki má koma fyrir í íslenskum efnahagsmálum er það að það komi raungengi. En Seðlabankinn — ég tek það fram, herra forseti, að ég geri mér grein fyrir því að ríkisstjórnin ber ábyrgð á stefnu hans — er einmitt að framkvæma þetta. Það er mjög brýnt, herra forseti, að átta sig á því að seðlabankar Evrópu eru einmitt þessa mánuðina og missirin að gera sér grein fyrir því að það er mjög óeðlilegt að hafa eingöngu verðlagsmálin sem mælikvarða. Seðlabankar Evrópu eru allir að átta sig á því að það er bandaríska fyrirmyndin sem þeir eiga að fara eftir, þ.e. að hafa alla þættina inni í og horfa til hagvaxtarins í samfélaginu. Það mundi borga sig best. Þannig tryggjum við best stöðugleika, stöðugleika sem allir, fjármagnseigendur, launamenn og atvinnufyrirtæki, allir hefðu sama hag af því allir hefðu það sama markmið að reyna að standa vörð um raunhæft og stöðugt verðlag þessarar krónu, þessa gjaldmiðils sem við byggjum allt á.