131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[17:03]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna fyrri hluta andsvars hv. þingmanns sem var í þá veru að hann hvatti þingheim til að bæta í og gera þessa tillögu enn afdráttarlausari og skýrari en hún er. Ég held að það séu öll tök á því máli í þeirri nefnd sem um það mun fjalla, væntanlega efnahags- og viðskiptanefnd. Ef það er eins vaxið og ég var að gefa mér áðan, og hef ekki ástæðu til að ætla annað, að stór meiri hluti þingheims styðji þessa meginhugsun, get ég ekki ímyndað mér að það standi á nefndinni og síðan hinu háa Alþingi að afgreiða málið fljótt og vel fyrir vorið og þá með skýrari og afdráttarlausari hætti, með hreinum fyrirmælum til þeirrar nefndar sem um ræðir, um hvernig haga beri vinnunni.

Ég neita að trúa öðru en því að hv. þingmaður, sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum, tali fyrir hönd meiri hluta þingflokks síns, ekki síst vegna þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði áðan í eilítið aðra veru. Hann er vanur því að vera alltaf á ská og skjön við þingflokk sinn og þá finnst mér það liggja í augum uppi að meiri hluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins sé á sömu skoðun og þingflokkar annarra stjórnmálaflokka á hinu háa Alþingi. Það styttist í að þessu markmiði verði náð.

Ég tek undir það að mest er um vert að hugarfarið nái að festa rætur, að menn trúi á það að stöðugleikinn og sambærileg lögmál og sambærileg ytri og innri skilyrði ríki á Íslandi og annars staðar.

Hvað varðar síðari hluta ræðu hv. þingmanns um gengismálin þarf ég lengri tíma en hálfa mínútu til að fara yfir þau mál. Ég held að ýmsar leiðir séu færar í þeim efnum og ég vildi gjarnan, sem tengist þessu ekki beint, að menn skoðuðu til að mynda upptöku evrunnar í því sambandi sem líka mun auka á þennan stöðugleika.