131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Námskrá grunnskóla.

472. mál
[12:01]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra hvort til standi að endurskoða námskrá grunnskóla og ef svo er, með hvaða hætti.

Staða grunnskólans hefur verið mikið í umræðunni á síðustu mánuðum, fyrst vegna kennaraverkfallsins, afleiðinga þess og áhrifa á skólann, óviðunandi stöðu kennara innan grunnskólans og fjármálalegri getu sveitarfélaganna til að reka grunnskólann af þeim metnaði sem þau svo sannarlega gera, enda hefur grunnskólinn tekið stakkaskiptum hvað gæði varðar eftir að hann var fluttur frá ríki til sveitarfélaga.

Framúrskarandi grunnskóli á að vera eitt helsta markmið okkar og það eru margar leiðir að því, en grundvallaratriðið er náttúrlega að ríkið geri upp við sveitarfélögin þannig að þeim sé gert mögulegt að bæta stöðu kennara, án þess er tómt mál að tala um betri grunnskólamenntun. Við eigum að sjálfsögðu að stefna að betri grunnskólamenntun og stefna hærra en við erum stödd núna. PISA-rannsóknin í lok síðasta árs sýndi að því fer fjarri að staðan sé nógu góð þó hún sé ágæt á sumum sviðum, hafi batnað á sumum stöðum en um leið versnað á öðrum.

Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum heimsótt einn og einn grunnskóla síðustu mánuði til að fá yfirlit yfir stöðu mála og hvernig hægt sé að ná samstöðu um að leggja meira til skólamála, búa til enn þá betri grunnskóla. Í þeim heimsóknum hefur ýmislegt athyglisvert komið upp, svo sem spurningar sem vakna um námskrár grunnskólanna í því ljósi að í umræðunni um styttingu námstíma til stúdentsprófs hafa komið upp sterkar raddir um það innan skólasamfélagsins að vænlegra sé að stytta grunnskólann um eitt ár en að stytta framhaldsskólann. Það sé eðlilegri leið, sérstaklega þar sem grunnskólinn hefur á tilteknu árabili lengst um tvö ár.

Ég vil taka undir það. Ég held að skoða eigi hvort stytta eigi grunnskólann fremur en framhaldsskólann og hvort sú leið sé færari og betri, en í öllu þessu eigum við að tryggja að hverfisskólarnir vaxi og dafni. Um leið og gott er að tryggja valfrelsi og fjölbreytni á grunnskólastigi er nauðsynlegt að efla hverfisskólann sem grunneiningu í skólasamfélagi okkar. Hann þarf að efla með margvíslegum hætti og til að mynda held ég að nauðsynlegt sé að endurskoða námskrá skólanna með það að markmiði að hún verði sveigjanlegri og vægi verk- og listnáms verði meira og valfrelsi nemenda þegar kemur upp í efri bekkina aukist verulega þannig að skólarnir búi yfir meiri sveigjanleika og námskráin verði ekki eins miðstýrð hvað skólana varðar og raun ber vitni.

Ég tel brýnt að endurskoða námskrána með þetta að markmiði og beini því áðurnefndri fyrirspurn til hæstv. ráðherra, hvort til standi endurskoðun á námskrá grunnskólanna og ef svo er, með hvaða hætti.