131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þrífösun rafmagns.

575. mál
[13:12]

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 7. þm. Suðurkjördæmis, Björgvini G. Sigurðssyni, fyrir að hreyfa þessu máli enn einu sinni eins og hér hefur verið vitnað til. Hann spurði um þetta hér munnlega vegna skriflegrar fyrirspurnar sem hann hefur fengið svar við, þ.e. um hvar sé þörf á þessu.

Ég tek undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að ég held að hv. þm. Hjálmar Árnason hafi misskilið svar ráðherrans. En ég vildi að satt væri að 650 milljónir væru að fara í átak í þrífösuninni. En svo er ekki. Þetta er viðhaldsverkefni Rariks og einhver lítill hluti af því er í þrífösun.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að mér finnst það lýsa frekar miklu metnaðarleysi hæstv. iðnaðarráðherra og iðnaðarráðuneytisins að ekki skuli vera gerð áætlun sem fólk sem vantar þessa gerð rafmagns getur unnið eftir. Má ég minna á það líka að það fólk sem býr svolítið við þetta er nú heldur betur að fá kaldar kveðjur frá hæstv. ríkisstjórn út af rafhitunarkostnaðinum, allt að 40% eða 50% hækkun miðað við þær breytingar sem urðu núna um áramótin.