131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Opinber hlutafélög.

619. mál
[13:18]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Tildrög fyrirspurnarinnar eru þau að við vorum saman á fundi í Reykjavíkurakademíunni þarsíðasta laugardag, ég, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hv. varaþingmaður Álfheiður Ingadóttir, en hún er flutningsmaður þingsályktunartillögu um opinber hlutafélög sem hér liggur fyrir. Ráðherra var spurður um þetta á fundinum og svaraði ekki mörgu til og kannski ekki vettvangur til þess en sagði að þetta hefði ekki verið mikið rætt á þinginu. Ég lofaði að bæta úr því og er þess vegna með fyrirspurn um það hvort á vegum ráðherra eða stofnana sem falla undir ráðuneyti hennar hafi verið kannað hvort fýsilegt sé að gera ráð fyrir opinberum hlutafélögum í íslenskri löggjöf og hver sé afstaða ráðherrans til þess. Vísa ég sérstaklega til dönsku og norsku hlutafélagalaganna.

Í þeim lögum og kannski víðar, ég hef ekki kannað það en vísa sérstaklega til þingsályktunartillögu Álfheiðar Ingadóttur sem er ágætt plagg og merkilegt fylgiskjal þar frá starfshópi á vegum Reykjavíkurborgar. Í þeim hlutafélagalögum er gert ráð fyrir sérstöku félagsformi sem eru opinberu hlutafélögin. Það sem er m.a. merkilegt við það félagsform er að þar er gert ráð fyrir að, það er reyndar ríkishlutafélag, ég nefni það hér opinbert vegna þess að ég geri ráð fyrir að hægt sé líka að búa til sveitarfélagshlutafélag eða sveitarfélagahlutafélag. Mér finnst eðlilegt að gera ráð fyrir því. Þar eru ríkishlutafélögin þannig að ríkið getur stofnað sérstakt hlutafélag. Það getur auðvitað sett því ýmis skilyrði, annaðhvort haft það þannig að hægt sé að selja það smátt og smátt ef þannig víkur við eða að ríkið sé eitt um það og ákvæði sé um að þingsamþykkt þurfti til. En hlutafélagið virkar eins og önnur hlutafélög á flestan hátt, þó er það t.d. undir upplýsingalögum og stjórnsýslulögum sem þau félög sem verið er að stofna á hinu háa Alþingi og í hinum háu ráðuneytum eru alla jafna ekki og hefur mjög verið kvartað yfir.

Þá má nefna það sérstaklega um norsku ríkishlutafélögin að þar eru ákvæði um þátttöku kvenna í stjórn, það er nokkuð hart ákvæði og hefur konum í stjórnum í Noregi fjölgað mjög mikið, þar sem þær öðlast reynslu og verða jafnframt fyrirmynd í öðrum félögum eða fyrirtækjum á markaði. Ég held að þetta sé hlutur sem við þurfum að íhuga vel hér og kannski hratt, og minni á að á morgun verður væntanlega umræða um félagsstofnun þar sem um er að ræða sjálft Ríkisútvarpið. Niðurstaða stjórnarflokkanna og málamiðlanir þeirra eru ákaflega vandræðalegar í því efni þar sem þeir hafa stofnað sameignarfélag með einum eiganda í staðinn fyrir t.d. að búa til lög sem gætu fallið undir ríkishlutafélag, sem væri a.m.k. eðlilegra.