131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Opinber hlutafélög.

619. mál
[13:30]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka fyrir svörin og fyrir þessa umræðu sem mér finnst hafa sýnt að það er brýn þörf á að huga að þessu máli. Hér hafa verið umkvartanir um að rekstrarform séu ekki nægilega þjál og ekki nægilega mörg til að hægt sé að búa til millistig á milli þess sem er ríkisstofnun annars vegar, eða stofnun sveitarfélags, og hins vegar hlutafélag sem er bara venjulegt bisnessfyrirtæki á markaði sem er auðvitað prýðilegt form fyrir sinn hatt.

Það kemur líka í ljós að þetta hefur ekkert verið kannað í ráðuneyti hæstv. ráðherra. Þó varð þessi fyrirspurn til þess að ráðherra fletti upp í norsku og dönsku löggjöfinni. Hún gerir sér þá væntanlega, og starfsmenn hennar, betur grein fyrir því um hvað er að ræða núna en áður. Ég held að þau dæmi sem hér hafa verið nefnd, ýmis, sýni að það er mikil þörf á að búa til almennan ramma um þetta. Það er kannski rétt að nefna það líka að víðar þarf auðvitað betri skilgreiningu á rekstrarformum, t.d. voru það ein rök þeirra sem fengu gefins Tækniháskólann um daginn að sjálfseignarstofnunarformið eða önnur form sem þeir litu á fullnægðu ekki þeim kröfum sem þeir gerðu til rekstrar síns og þess vegna var gert hlutafélag úr þeim háskóla. Það er einstakt í veröldinni.

Ég verð að segja að mér þykir það heldur þunnt svar við spurningunni: „Hver er afstaða ráðherrans til þessara mála?“ þegar hún segir að ekki hafi verið færð rök fyrir því að þörf sé á slíkri löggjöf. Það var gert í þessari umræðu og það er gert í ágætri tillögu Álfheiðar Ingadóttur hér á þinginu. Það er líka gert í þeim þingmálum sem Guðmundur Árni Stefánsson og Helgi Hjörvar hafa staðið að, sem eru held ég tvö frekar en eitt. Ég held að ráðherra ætti að íhuga þetta betur og í raun og veru ættum við að koma þessu máli varaþingmannsins hér í umræðu og í skoðun í nefnd.

Ég vil þakka ráðherranum þó fyrir það sem hún hefur gert en hvet hana til að taka þessu ekki eins neikvætt og þurrlega og raun bar vitni áðan.