131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Opinber hlutafélög.

619. mál
[13:32]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram í svari mínu hef ég alls enga fordóma gagnvart því fyrirkomulagi sem hér er stungið upp á. Þvert á móti sagði ég að ég hefði ekki orðið vör við sérstaka þörf. Ég stend við þau orð en er hins vegar alveg opin fyrir því ef sýnt verður fram á þörfina fyrir að þetta verði skoðað frekar í ráðuneytinu. Við höfum leyst málin á annan hátt með sérlögum um sérstakan rekstur eða sérstakar verksmiðjur, banka og annað þegar á hefur þurft að halda.

Eins og kom fram í máli mínu áðan hvað varðar danska og norska löggjöf hafa ekki verið sett almenn lög þar um opinber hlutafélög. (Gripið fram í.) Það eru ekki almenn lög um opinber hlutafélög í Danmörku og Noregi. (Gripið fram í.) Þegar hér kemur fram eins og það sé bara sjálfkrafa inni í lögunum að það þurfi að vera 40% hlutfall kvenna í stjórnum verð ég að leiðrétta það, það er sérstök ákvörðun sem tekin er af hálfu norska þingsins að setja það ákvæði inn í lögin. Þann möguleika (MÁ: … í lögunum?) hafa ... já, en það er ekki eins og það gerist af sjálfu sér, það er sett í lögin. Það gerist ekki af sjálfu sér þó að menn taki upp ákvæði um ríkishlutafélög.

Mér skilst að fyrir liggi þingsályktunartillaga eða frumvarp, a.m.k. þingmál sem ég mun kynna mér frekar. Eins og ég segi hef ég enga ástæðu til að vera neitt sérstaklega á móti þessu formi en hef hins vegar ekki alveg séð ástæðuna fyrir því að taka það upp.

Það var talað um upplýsingaskyldu. Nú liggur líka fyrir þinginu frumvarp til laga um ársreikninga. Mér finnst ekki ólíklegt, þó að það heyri ekki undir mig sem viðskiptaráðherra, heldur fjármálaráðherra, að eitthvað verði tekið á upplýsingaskyldu í því.