131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Greiðslur almannatrygginga til öryrkja og aldraðra.

618. mál
[14:05]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Í fyrirspurninni er forsenda sem ég tel að standist ekki. Þar er fullyrt að greiðslur almannatrygginga til öryrkja og aldraðra hafi ekki fylgt launaþróun eins og kveðið er á um í almannatryggingalögum. Ég hafna því. Ég tel að það hafi verið farið eftir því ákvæði sem hv. þingmaður vitnaði til, 65. gr. almannatryggingalaganna, í einu og öllu. Menn hafa lagt sig eftir því að framfylgja þessu ákvæði.

Ég náði ekki nákvæmlega þeim tölum sem hv. þingmaður vitnaði til en viðmiðunin hefur verið sú að bæturnar hækki um það sem nemur kjarasamningsbundnum hækkunum hjá almennu verkalýðsfélögunum. Það er ekki miðað við vísitölu launa eða launavísitöluna sem hv. þingmaður notaði í þessum samanburði.

Síðan hafa bótaþegarnir þá tryggingu, sem aðrir í þjóðfélaginu hafa ekki, að ef verðlag hækkar, samkvæmt vísitölu neysluverðs, meira en sem nemur launahækkunum þá beri að hækka bæturnar sem því nemur, þ.e. kaupmáttur bótanna skerðist aldrei eins og gerst getur hjá almennu launafólki. Ákvæðið segir að annaðhvort sé launaþróuninni fylgt eða vísitölu neysluverðs.

Frá því að þetta ákvæði kom í lög 1997 hefur aðeins einu sinni reynt á það vegna þess að sem betur fer fer kaupmátturinn á Íslandi vaxandi frá ári til árs. Árið 2001 voru bætur bættar upp sérstaklega með viðbótarhækkun ofan á almennu launahækkunina frá 1. janúar 2002. Það gerist ef í ljós kemur að bæturnar hafa verið lægri heldur en nemur vísitölu neysluverðs. Þá er ekki annað ráð við því en að bæta það upp eftir á.

Hins vegar vil ég taka fram að þó svo við höfum í þessum efnum miðað við almennar kjarasamningsbundnar launahækkanir á vinnumarkaðnum þá er niðurstaðan sú, ef maður tekur nokkurra ára tímabil, allnokkur ár, að þessar bætur og kaupmáttur þeirra hefur hækkað meira en sem nemur launavísitölunni. Ef maður tekur t.d. raungreiðslur, hve mikið þær hafa hækkað frá árunum 2002–2004, raunverulegar greiðslur að meðaltali til ellilífeyrisþega, þá hafa þær hækkað um 15,3%, á meðan launavísitalan hækkaði um 10,6%. Þetta eru raunverulegar útborgaðar greiðslur. Þar kemur við sögu að það hefur líka verið dregið úr tengingum og skerðingum vegna tekna milli maka o.s.frv. Það kemur fólki til góða.

Ef maður horfir lengra aftur í tímann, t.d. á 10 ára tímabil, þá kemur í ljós að grunnlífeyrir hefur á árunum 1995–2004, hjá hjónum sem bæði eru lífeyrisþegar, hækkað um 84%, á meðan launavísitalan hækkaði um 78,6%. Þannig mætti taka ýmis dæmi. Það er auðvitað ekki tóm til þess í svona fyrirspurn að rekja slík dæmi en sem betur fer hefur tekist að tryggja að kaupmáttur þessara hópa, ellilífeyrisþega og öryrkja, hafi aukist, a.m.k. í takt við það sem almennt gerist og í mörgum tilvikum meira en almennar hækkanir. Þar kemur til skjalanna samkomulag við eldri borgarana og fleiri slíkir þættir, ýmsar greiðslur umfram það sem ákvæði laganna segja beint til um.

Ég tel því að fullyrðingar þingmannsins eigi ekki við rök að styðjast. Ég kann ekki að fara með þær tölur sem hann nefndi máli sínu til stuðnings. Það þyrfti að skoða þær sérstaklega ef eitthvað er hæft í því sem þar kom fram.