131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Fjárhagsstaða ellilífeyrisþega.

[15:58]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur farið hér fram. Ég þakka málshefjanda fyrir að brydda upp á henni. Ég verð að endurtaka, þrátt fyrir hin miklu umbrot hans í ræðustól, að ég ætla að vinna áfram að málinu með eldri borgurum. Við erum búin að setja það mál í farveg.

Varðandi fyrirspurn hv. 9. þm. Reykv. s., um hvort ríkisstjórnin ætli að fara að lögum — að sjálfsögðu ætlar hún það. Það er eitt hlutverk þess starfshóps sem nú er að fara af stað að fara yfir alla þá útreikninga sem dynja yfir varðandi kjör aldraðra og að sjálfsögðu verður farið yfir þær tölur sem hv. þingmaður fór með. Við viljum vinna þetta í samkomulagi.

Þetta mál vinnst ekkert með upphrópunum úr ræðustóli á Alþingi. Fyrir tveimur árum gerðum við mjög merkilegt samkomulag við aldraða sem við höfum verið að framkvæma, og þar á meðal er í því samkomulagi komið inn á hjúkrunarrými sem hér hefur verið rætt um. Það er nauðsynlegt að halda því áfram og það er nauðsynlegt vegna þess að kröfurnar um það rými hafa aukist og við erum staðráðin í því að fara líka yfir þau mál.

Lífskjör aldraðra ráðast ekki eingöngu af bótum. Þau ráðast af eignum, af lífeyrisréttindum og atvinnu á efri árum. Íslendingar standa mjög vel að þessu leyti. Aldraðir eru ekki einsleitur hópur og ég vil einbeita mér að því að bæta kjör þeirra sem lifa af bótum almannatrygginga eingöngu.