131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[11:45]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að það er engin ástæða út af fyrir sig til þess að tefja þetta mál hér í þinginu. Málið sem slíkt er afskaplega einfalt, og eðlilegt að reynt verði að hraða því í gegn eins og kostur er.

Mér fannst hins vegar, og það vakti athygli mína, ekki koma fram í máli hv. þingmanns nægilegur metnaður varðandi eflingu sveitarstjórnarstigsins. Hv. þingmaður vitnaði til orða, í viðtal væntanlega sem haft var við hv. þm. Össur Skarphéðinsson, varðandi þá framtíðarsýn hans að við gætum séð á landinu 12–14 sveitarfélög. Ég held að það sé nákvæmlega sú framtíðarsýn sem við eigum að horfa til, að fækka sveitarfélögunum svo mikið, en vissulega þarf þá að gera ýmsar breytingar. Þá yrði eðlilegt að horfa til þess að settar yrðu — ja, menn hafa leikið sér með alls konar orð á því — hreppsstjórnir, þorpsstjórnir, hverfastjórnir, eða hreppsnefndir sem er hið gamla heiti sem við gætum þá endurlífgað, um ákveðna málaflokka á ákveðnum svæðum.

Það eru ýmsar leiðir til þess ef við viljum í raun og veru efla sveitarfélögin. Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að það kom fram að þegar hv. þingmaður var sveitarstjórnarmaður hefðu sveitarfélögin verið rúmlega 200. Ef tillögur sameiningarnefndar ganga fram erum við búin að fækka þeim niður fyrir 50. Ef við náum því fram er ekkert voðalega langt í að við getum farið í 12–14. Það er kannski ekkert lengri tími en liðinn er frá því að hv. þingmaður var í sveitarstjórn, það er álíka hlutfall þarna á milli.

Ég held, og ég held að það hafi komið fram í máli hv. þingmanns, að með því að taka þessi litlu hænufet sem við höfum verið að gera allt of oft á undanförnum árum, bæði varðandi sameiningu sveitarfélaga og síðan þegar við lendum í tekjustofnunum, lendum við í vanda. Hv. þingmaður tók ágætt dæmi um það að við lendum alltaf í slíkum vanda eins og var með aðstöðugjaldið. Aðstæður sveitarfélaganna eru svo mismunandi, og ef við ætlum okkur í raun og veru að leysa þennan vanda með tekjustofnana til framtíðar þurfum við að horfa til þess að fækka sveitarfélögunum í 12–14, 10–15. Það er tala af þeirri stærðargráðu sem ég held að við þurfum að stefna að ef við ætlum okkur að leysa þetta flókna mál sem hárrétt er hjá hv. þingmanni að er mjög flókið, sérstaklega þegar við tökum skrefin svona lítil og smá.