131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Staða íslensks skipasmíðaiðnaðar.

[13:47]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Tilefni þessarar umræðu er að við erum að verða vitni að því að íslensk stjórnvöld eru að senda stórt verk úr landi. Satt best að segja er ég hissa á því að hæstv. dómsmálaráðherra skuli ekki sjá sóma sinn í því að vera hér viðstaddur og skýra út hvernig standi á því að við erum að senda þetta stóra verk úr landi.

Við erum að ræða um tilboð í verk sem hefði farið fram norður á Akureyri því tilboð þeirra er einungis nokkrum milljónum króna dýrara en tilboðið sem kom frá Póllandi. En þegar öllu er á botninn hvolft og allur kostnaður skoðaður eru allar líkur á því að það hefði verið hagstæðara fyrir þjóðarhag og einnig fyrir Landhelgisgæsluna að taka tilboði íslensku skipasmíðastöðvarinnar.

Þetta er mjög sérstök ákvörðun, sérstaklega í ljósi þess að það finnast einungis nokkurra ára gömul dæmi um að verk sem Landhelgisgæslan sendi úr landi fór langt fram úr kostnaðaráætlun, annars vegar 60% fram úr kostnaðaráætlun og hins vegar, hitt skipið, 90%. Ef stjórnvöld hefðu lært eitthvað hefðu þau kappkostað að hafa verkið heima.

Þetta sýnir okkur að íslensk stjórnvöld læra ekki af reynslunni og það er mjög alvarlegt. Ef við horfum eingöngu á þjóðarhag, á það ef allir þeir fjármunir sem við erum núna að sturta út úr hagkerfinu alla leið til Póllands hefðu runnið hingað til iðnaðarmanna á Íslandi og hringlað hér í hagkerfinu, hefði íslenskt þjóðfélag staðið mun betur eftir og þjóðarhag verið mun betur borgið.