131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:34]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður veit að ég mun svara þessari spurningu á einni mínútu og hann veit einnig að svarið hlýtur að verða mjög stuttaralegt. Hann veit það líka jafn vel og ég að ég hef haldið margar ræður um fiskveiðistjórnarmál og mínar skoðanir eru ekkert leyndarmál og ég hef margoft lýst þeim.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega heimabyggð mína. Það er alveg rétt að mín heimabyggð fór skelfilega út úr því þegar aflaheimildir voru seldar þaðan. En sem betur fer ... (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Samt sem áður er það þannig — hv. þingmaður ætti að vita það því hann er líka þingmaður þessa svæðis — að hann ætti að vita að sú þróun hefur sem betur fer orðið á síðustu missirum í Bolungarvík að þar hafa aflaheimildir stóraukist og eru núna að verða álíka í hlutfalli og þær voru þegar skást var. Þetta er auðvitað vegna þess að við eigum framtakssama og duglega menn sem menn hafa trú á og þeir hafa verið að byggja upp þetta atvinnulíf. Hv. þingmaður hristir auðvitað hausinn yfir þessu. Þetta passar ekki inn í heimsmynd hans. Þetta passar ekki inn í kenningarnar hans því að hv. þingmaður talar (SigurjÞ: Það er helmingi minni afli en ...) um sjávarútvegsmál eins og trúarbrögð. Hann talar aldrei um þetta eins og staðreyndir. Hann talar um þetta eins og trúarbrögð og hann snýr hlutunum alltaf sjálfum sér í hag. Þetta er gömul aðferð sem menn nýttu sér í gamla daga fyrir 500 árum. Ég hélt, (Forseti hringir.) hv. þingmaður, að menn hefðu hætt þessu.