131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:44]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt að hæstv. félagsmálaráðherra reyni að bera sig vel þegar hann kemur fram með frumvarp um að fresta þurfi kosningu um sameiningu sveitarfélaga frá því í apríl og fram í október á þessu ári. Hæstv. ráðherra kemur að þessu máli undan og ofan og allt um kring því að sem varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur hæstv. ráðherra þeim megin að því að hreyfa þessu við ríkisvaldið og tekur svo málið í fangið þegar hann er orðinn félagsmálaráðherra. Það er ekki undarlegt þó að hann reyni að bera sig vel þó að hér sé verið að leggja fram frumvarp sem seinkar mjög þeirri kosningu sem talað var um að fara í. Fréttatilkynning frá félagsmálaráðuneytinu í dag segir kannski sína sögu um hvað hæstv. ráðherra reynir að bera sig vel. Í fréttatilkynningunni um eflingu sveitarstjórnarstigsins segir, með leyfi forseta:

„Vinna við átak um eflingu sveitarstjórnarstigsins, sem staðið hefur frá því á haustmánuðum 2003, er nú komin vel á veg.“

Ef það er ekki ákveðin bjartsýni að túlka stöðu mála með þeim hætti sem fram kemur í þessari setningu veit ég ekki alveg hvað bjartsýni er.

Það voru áhugaverðar upplýsingar sem fram komu hjá hæstv. ráðherra varðandi Gallup-könnun sem gerð hefur verið hjá kjósendum vítt og breitt um landið. Hæstv. ráðherra las upp tölur úr Gallup-könnuninni á Vestfjörðum, með og á móti, og tók ekki afstöðu en vænt þætti mér um ef hann hefði tölur utan Reykjanesbæjar á Suðurnesjum til að lesa upp með sama hætti og gert var um Vestfirði þannig að við vissum þá hverjir hefðu verið með, hverjir á móti og hverjir tækju ekki afstöðu. Það getur vel verið að sá sem hér stendur sé eitthvað litaður af umræðunni eins og hún er og hefur verið á Suðurnesjum því þar bý ég jú, en ég hef orðið var við meiri andstöðu við sameiningartillögum síðustu vikur en áður.