131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[19:01]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski alveg ástæðulaust að munnhöggvast við hæstv. félagsmálaráðherra sem hefur sömu sýn á málið og sá er hér stendur. Hins vegar ber að þakka meiri hlutanum og R-listanum í borgarstjórn fyrir að marka stefnuna, stefnu sem hefur verið mörkuð og tekin ákvörðun um að hefja vinnu að. Auðvitað mun stefnan leiða til þess að ríkisstjórnin verður dregin nauðug viljug að því að tryggja gjaldfrjálsan leikskóla hringinn í kringum landið. Að sumu leyti skil ég hæstv. fjármálaráðherra vel að vera ósáttur við að vera dreginn inn í verkefnið en þannig er bara veruleikinn.

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur ýtt af stað bolta sem mun klárlega leiða til þess að ríkisstjórnin mun neyðast til að taka upp viðræður við sveitarfélögin til að tryggja að ekki verði mismunun á leikskólum og háskólum, verið er að tryggja öllum jafnrétti í þessum efnum og ástæðulaust að rukka leikskólabörn (Forseti hringir.) um háa gjaldtöku meðan enginn er tilbúinn til (Forseti hringir.) að leggja á gjöld í háskóla.