131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

659. mál
[14:24]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu held ég því ekki fram að þetta hafi ekki skipt neinu máli. Það sem ég er að segja er það að umfangið er mjög lítið og áhugi a.m.k. ekki mikill í þjóðfélaginu fyrir því að þessi starfsemi sé rekin áfram. Það er ástæða þess að frumvarpið er lagt fram. Það er lagt fram núna vegna þess að það samkomulag sem tekið var upp 2002 er að renna út og það verður að grípa til einhverra ráðstafana. Við höfum margrætt þetta og farið mjög gaumgæfilega yfir málið og niðurstaðan varð einfaldlega þessi.

Ég endurtek að ég batt miklar vonir við þessa starfsemi þegar hún var tekin upp með nýjum formerkjum árið 2002 í samstarfi við mikilvæga aðila í samfélaginu. Ég hef mikinn áhuga á atvinnulífinu almennt og taldi að þetta væri ein leið til að styrkja það. En auðvitað verðum við líka að horfa á það að við lifum á breyttum tímum og að gríðarlega miklir möguleikar eru í lánamálum sem ekki voru áður. Kannski er bara liðinn sá tími sem það er virkileg þörf fyrir svona starfsemi. Ég er þó þeirrar skoðunar að hún sé enn þá viðhöfð hjá nágrannaþjóðum okkar, annars staðar á Norðurlöndunum, og kannski gengur hún betur þar vegna stærðarmunar og stærðar þeirra samfélaga.