131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Atvinnubrestur á Stöðvarfirði.

496. mál
[14:16]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér þykir hún afskaplega ömurleg og snautleg, sú vörn sem þingmenn Framsóknarflokksins og hæstv. byggðamálaráðherra viðhafa í þessu máli, dyggilega studd af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki boðlegt að koma hingað og lýsa því yfir að verið sé að vinna einhverja áætlun varðandi einhvers konar nýsköpun fyrir þorp eins og Stöðvarfjörð.

Hvers vegna byggðist Stöðvarfjörður upp? Jú, hann byggðist upp á fiskveiðum og því ætti hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir að geta gert sér grein fyrir. Framtíð Stöðvarfjarðar mun áfram byggjast á fiskveiðum en framtíð Stöðvarfjarðar mun ekki verða tryggð nema íbúum Stöðvarfjarðar verði veittur sjálfsagður réttur til nýtingar á sinni fremstu auðlind sem er jú fiskurinn í sjónum.

Það hlýtur að vekja undrun að hæstv. byggðamálaráðherra sem sjálf er frá Grenivík, sjávarþorpi við Eyjafjörð, skuli ekki gera sér grein fyrir jafneðlilegri og sjálfsagðri staðreynd.