131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Konur sem afplána dóma.

626. mál
[15:22]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum árum voru samþykkt lög frá Alþingi sem heimiluðu að hluti þeirra sem brotið hefðu af sér og hlotið tiltölulega stutta dóma ættu kost á að afplána með samfélagsþjónustu. Það var stórt skref og með þeim fyrstu í átt að því að fjölga og breyta refsiúrræðum, gera þau opnari en verið hafði. Að fjölga refsivistarúrræðunum er skref í þá átt að búa þá sem gerast brotlegir við lögin betur undir þátttöku í samfélaginu að nýju.

Lög um fangelsi og fangavist kveða á um réttindi fanga, um aðbúnað þeirra og möguleika til vinnu, til náms, útivistar, samveru við fjölskyldu, læknishjálp og fleira. Þar eiga að gilda sömu reglur um hvað varðar konur og karla en því miður er það ekki svo. Í fangelsinu í Kópavogi var ætlað að vista konur sem brotið hefðu af sér. Upphaflega var það eingöngu ætlað konum en þróunin varð sú að þar hafa einnig verið karlar, yfirleitt með stutta dóma.

Í skýrslu Fangelsismálastofnunar um markmið í fangelsismálum og framtíðaruppbyggingu fangelsanna kemur fram að fangelsið í Kópavogi henti illa til afplánunar langtímadóma vegna þrengsla, aðstæður eru slakar og skortur á aðbúnaði, engin íþróttaaðstaða, möguleikar til útivistar litlir og vinnuframboð af skornum skammti. Þá segir að aðstaða kvennanna í fangelsum sé ekki sambærileg við stöðu karlfanga, einkum vegna þess að þær eigi enga möguleika á að vistast í opnara fangelsi, t.d. á Kvíabryggju. Þá eru engar aðstæður í fangelsinu í Kópavogi til að vista fanga með geðraskanir. Það hefur þó verið gert en getur vart kallast mannúðleg aðferð.

Nýlega var kvenfangi fluttur til vistunar að Litla-Hrauni. Hverjar sem ástæðurnar eru þá hlýtur að vera óverjandi að Fangelsismálastofnun hafi ekki önnur úrræði en þau, jafnvel þegar um er að ræða veika einstaklinga. Má vera að í framtíðinni verði hægt að vista bæði karla og konur að Litla-Hrauni en þær aðstæður eru vart fyrir hendi í dag.

Við hljótum að taka undir ábendingar Fangelsismálastofnunar um að brýnt sé að veita kvenföngum sömu vistunarmöguleika og karlföngum. Fangelsismálastofnun hefur sett sér þau markmið að föngum verði tryggð örugg og vel skipulögð afplánun, að mannleg og virðingarverð samskipti verði höfð í fyrirrúmi og að aðstæður og umhverfi hvetji fangann til að takast á við vandamál sín. Núverandi aðstæður í fangelsum landsins bjóða ekki upp á möguleika á að ná þessum markmiðum. Nægir þar að nefna fangelsið við Skólavörðustíg og fangelsið á Akureyri sem verstu dæmin. En í fangelsinu í Kópavogi eru ekki heldur aðstæður til að ná slíkum markmiðum. Það sem verra er er að þótt karlfangar sem afplána langa dóma búi oft við lakar aðstæður þá eru þær jafnvel enn verri hjá kvenföngum í langtímaafplánun.

Því spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra:

1. Hversu margir sem hljóta dóm á ári hverju afplána nú með samfélagsþjónustu og hversu margar konur eru í þeim hópi?

2. Á hvern hátt hyggst ráðherra beita sér fyrir því að staða og möguleikar kvenna í fangelsi séu sambærileg stöðu og möguleikum karlfanga?