131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Gæðamat á æðardúni.

670. mál
[14:51]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er klár á því að það verður hægt að færa sitthvað til betri vegar í þessu frumvarpi í meðförum landbúnaðarnefndar eftir að við höfum hlýtt á athugasemdir þeirra gesta sem við væntanlega fáum.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson ræddi um hvað teldist góður æðardúnn og hvort til væru staðlar. Ég hygg að hið sama gildi um æðardún og aðrar vörur, að það eru neytendur eða nýtendur vörunnar sem ákveða hvað er góð vara. Varðandi æðardúninn þá er sá dúnn góður sem er laus við fjaðurstafi, strá eða annað rusl sem kemur í hreiðrin við eðlilegar aðstæður, hreinn dúnn og óklesstur. Í tilfelli Japananna er það dúnn sem er laus við lykt, þ.e. Japanir gera þær kröfur umfram aðra að dúnninn sé þveginn. Það er því tvímælalaust neytandinn sem setur okkur kröfurnar og þær kröfur þekkja Íslendingar. Þess vegna m.a. viljum við Íslendingar halda matsferlinu hjá okkur.

Ekki má gleyma því að um er að ræða hráefni sem, eins og ég benti á áðan, felur í sér svo mikinn virðisauka að varan sem við framleiðum endanlega á að geta borið hin háu laun á íslenskum vinnumarkaði. Mér finnst sjálfsagt að við reynum að nýta okkur kostina við þessa dýru vöru en til þess þarf væntanlega stuðning opinberra aðila við að koma vöruþróun og markaðssetningu í það horf sem vera þarf til að við getum sjálf fullunnið vöruna og komið henni á framfæri.