131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Umræða um málefni Ríkisútvarpsins.

[13:43]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er komin upp grafalvarleg staða sem hreinlega versnar með hverjum klukkutímanum sem líður. Það er ekkert skrýtið þótt þingheimur óski eftir umræðum um störf forseta því að í morgun gerðist sá fáheyrði atburður að Alþingi barst ákall frá fréttamönnum á Ríkisútvarpinu og ég hefði haldið að það ákall ætti að vera tilefni til þess að sá texti yrði lesinn upp af forseta þingsins fyrir þingheim í stað þess að vera skutlað inn á lestrarsal Alþingis.

Ég vil því leyfa mér, svo að þetta ákall verði fært til bókar í þingtíðindum fyrir komandi kynslóðir af því að ég tel að við séum að sigla hér inn í sögulegt ferli ef fram fer sem horfir, að lesa þetta ákall upp, með leyfi forseta:

„Reykjavík, 1. apríl 2005 …“

(Forseti (JóhS): Forseti getur ekki leyft að þetta sé lesið upp hér. Þetta fjallar ekki um fundarstjórn forseta. Það var ákveðið á nýafstöðnum fundi með formönnum þingflokka að óskað yrði eftir því við menntamálaráðherra að hún yrði viðstödd utandagskrárumræðu eins og fljótt og hægt er eftir helgi en eins og hv. þingmenn vita er hæstv. menntamálaráðherra erlendis. Forseti mun koma þeim boðum til hæstv. menntamálaráðherra og þá gefst sannarlega tækifæri til þess að ræða það skjal sem hv. þingmaður nefnir hér. En forseti getur ekki leyft að það sé lesið hér upp undir liðnum um fundarstjórn forseta.)

Gott og vel, virðulegi forseti, það er þá fært til bókar í þingtíðindum að mér hafi verið meinað að lesa upp þetta skjal til þess einmitt að það kæmist í þingtíðindi. Ég vildi fá að gera það vegna þess að ég taldi ámælisvert að forseti þingsins læsi ekki upp þetta skjal fyrir þingheim því að, eins og ég sagði, það er fáheyrt að okkur berist slíkt ákall.

Ég vil þá nota tíma minn í ræðustól til þess að gagnrýna það líka að forseti skuli ekki gera kröfu um að hæstv. forsætisráðherra komi hingað í þingsal. Ég sá hann í þinghúsinu fyrir rétt tæpum hálftíma en hann lætur ekki sjá sig í þingsal og reyndar afskaplega fáir framsóknarmenn og framsóknarmenn þegja þunnu hljóði um þetta mál. Það er að sjálfsögðu líka ámælisvert og gildir þá einu hvort um er að ræða þingmenn eða ráðherra.

Ég vil ljúka máli mínu með því að spyrja forseta að því hvort ekki sé við hæfi að forseti kalli eftir hæstv. forsætisráðherra — hann var hérna rétt áðan og hann er sennilega enn þá einhvers staðar í þinghúsinu — þannig að hann geti verið hér og hlustað á þessa umræðu og jafnvel staðið fyrir máli sínu.