131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[14:59]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að hreinleikinn skiptir okkur mjög miklu máli. Ég veit að hv. þingmaður hefur ferðast vítt og breitt um heiminn og Ísland auðvitað í heild og það eigum við sammerkt.

En það sem ég las út úr ræðu hans eða áhyggjum af þessari svokölluðu stóriðjustefnu, þ.e. að við erum að framleiða hér ál sem er notað að hluta til í ferðaþjónustu vítt og breitt um heiminn, til flugvéla- og bílaframleiðslu o.s.frv. En við þurfum vissulega að gæta að því ferðaþjónustan skiptir Ísland gríðarlega miklu máli og sem betur fer hefur þessi svokallaða stóriðjustefna ekki skaðað okkur, a.m.k. ekki enn sem komið er, varðandi komu ferðamanna til Íslands. En við þurfum auðvitað að gæta að því á öllum þeim vettvangi. Við framleiðum hágæðamatvöru, sama hvort við tölum um kjöt, fisk, grænmeti eða hvað eina, við vitum að við erum með hágæðamatvöru sem tengist ferðaþjónustunni okkar. Við eigum að byggja upp sem fjölbreytilegast atvinnulíf á Íslandi og ferðaþjónustan er stór þáttur í því.