131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[21:00]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Nú erum við að ræða hér að verið sé að leggja niður Þróunarsjóðinn og í umræðum hefur komið fram að það eigi ekkert að gera með þingsályktun sem var samþykkt á 125. þingi um að fjármunir úr Þróunarsjóðnum ættu að ganga til varðveislu skipa. Það hefur heldur ekkert komið fram um að það eigi að veita einhverja fjármuni til þeirra verkefna. Eina málsvörn hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur verið sú að ekki veiti af fjármununum til hafrannsókna. Ég tel að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé að kasta frá sér miklu tækifæri til að varðveita atvinnusögu landsins. Enginn hefur hér mælt á móti því að huga þurfi að verndun báta og skipa, þeir liggja víða undir skemmdum. Það hefur enginn, hvorki stjórnarandstæðingur né stjórnarsinni, talað á móti því að þar séu verkefni. Þess vegna veltir maður fyrir sér hvað kalli akkúrat núna á að þessir fjármunir fari allir í hafrannsóknir. Um það hefur hæstv. fjármálaráðherra ekkert sagt. Ég tel að hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti að greina okkur frá því hvað hastar einmitt til þess að þessir fjármunir eigi að fara til þessara verkefna, en ekki til þeirra verkefna sem sjálft Alþingi hefur ákveðið, verkefna sem voru samþykkt á 125. löggjafarþingi, og meira að segja af sjálfum þingforsetanum. Allir greiddu atkvæði með þeirri tillögu, 49 atkvæði féllu með því að nota ætti fé úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins til varðveislu báta og skipa. Sú tillaga var flutt af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni.

Hér í umræðunni fyrr í dag ræddi ég einmitt þá spurningu hvað vekti fyrir mönnum, hvað kallaði á að ekkert væri gert með samþykktir Alþingis. Ég sagði að það væri lágmarkskrafa að þingmenn sem samþykktu eitthvað greindu frá því hvers vegna þeir skiptu um skoðun. Enginn hefur komið hingað og sagt frá því hvað það væri og hvers vegna þeir skiptu um skoðun, ekki einu sinni hæstv. þingforseti. Mér finnst að þingið eigi að segja frá því. Ég hef sjálfur skipt um skoðun. Mér finnst það bara ósköp eðlilegt mál, en þá er að sama skapi eðlilegt að reyna að rökstyðja það með einhverjum hætti en ekki bara að gera ekkert með fyrri samþykktir. Þessir umræddu þingmenn hafa ekki bara gert ekkert með samþykktir sínar, heldur hafa þeir látið ógert að rökræða það eitt eða neitt. Reynt hefur verið að þegja málið í hel. Ég minntist m.a. á Kristin H. Gunnarsson, týnda soninn, hv. þingmann, að hann hefði ekkert gert með orð sín og loforð, sem og fleiri þingmenn, hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, Einar Oddur Kristjánsson og Hjálmar Árnason, varðandi sóknardagabáta.

Ég kalla það svik þegar menn gera ekkert með orð sín og halda þau ekki. Hér í umræðunni fór það eitthvað fyrir brjóstið á hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég átta mig ekki á því hvers vegna það er. Ég kalla hlutina sínum réttu nöfnum, og ef menn halda ekki orð sín er það ekkert annað en svik. Til að fá það staðfest fletti ég því upp í orðabók Menningarsjóðs hvað það væri að svíkja. Það er einmitt það sem þessir þingmenn gerðu, í skilningi mínum og í skilningi orðabókarinnar, að svíkja sem er skilgreint í orðabók Menningarsjóðs að „ganga á bak orða sinna, standa ekki við gefið loforð“. Það er einmitt það sem umræddir þingmenn gerðu varðandi þetta mál. Þess vegna er óþarfi að vera svo viðkvæmur, hæstv. sjávarútvegsráðherra, þótt maður kalli hlutina sínum réttu nöfnum. Ég veit ekki hvort menn vilja kannski skrifa nýja orðabók en þetta er það sem stendur í orðabók Menningarsjóðs. Það að svíkja, eins og hv. þingmenn gerðu, er að ganga á bak orða sinna. Þetta heitir einfaldlega að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.

Ég hef áður meira að segja verið ávítaður fyrir að kalla ákveðinn ráðherra, hæstv. forsætisráðherra, lúpu. Samkvæmt skilgreiningu orðabókarinnar er lúpa „feiminn, óframfærinn maður“. Mér finnst þetta oft vera óþarfaviðkvæmni fyrir því að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Það verður þó ekki sagt um hæstv. forseta þingsins, þann sem hér situr. Það er ekki hægt að segja að hann sé með einhvern tepruskap. Þess vegna vil ég að hann taki það til greina að þeir, bæði hæstv. ráðherrar og þeir þingforsetar sem hafa verið að setja ofan í við þann sem hér stendur í ræðustól, endurskoði það að ef menn kalla hlutina sínum réttu nöfnum sé það einhver dónaskapur. Það er af og frá. Menn verða að fá að nota íslenskt mál hér og kalla hlutina sínum réttu nöfnum.

Því hefur ekki verið á móti mælt að skipum hrakar. Það er orðin æ meiri þörf á að veita fjármuni til varðveislu báta og skipa. Það eru staðreyndir sem blasa við öllum. Þess vegna er óskiljanlegt að stjórnarliðar útskýri ekki fyrir okkur hér hvers vegna þeir skipti um skoðun og geri ekkert með fyrri samþykktir þingsins. Ég vil nefna m.a. hæstv. þingforseta og hv. þm. Kristin H. Gunnarsson. Við eigum heimtingu á að fá að vita hvað verður til þess að þeir telji óþarft að gera nokkuð með fyrri samþykktir, þingsályktunartillögur þingsins. Hvað er það sem kallar á, hæstv. sjávarútvegsráðherra, að allir fjármunirnir fari til hafrannsókna? Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefði getað skrifað nafn sitt á spjöld sögunnar og varðveitt atvinnusöguna en í stað þess fer hann með alla fjármuni sem gefast í hafrannsóknir. Ekki er ég að gera lítið úr því að það eigi að rannsaka hafið en það hlýtur að vera eitthvað sem kallar á það einmitt núna að hæstv. sjávarútvegsráðherra fari með alla fjármunina í þann málaflokk.

Mér finnst að hæstv. sjávarútvegsráðherra eigi að skýra það út fyrir okkur hvað það er og hvaða verkefni kalli á þessa fjármuni.

Nú er togararallinu nýlokið, eftir því sem ég best veit, þann 20. mars sl. Það væri fróðlegt að fá það í umræðuna, vegna þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra vill fá meira fé í þennan málaflokk, í hvaða verkefni allir þessir fjármunir eigi að fara með niðurlagningu Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Er það þorskurinn? Er þetta verkefni sem varðar þorskinn? Nú vitum við að stefna Sjálfstæðisflokksins í að byggja upp þorskstofninn hefur algerlega mistekist. Það er ömurlegt að fara í gegnum það að eftir 20 ára kvótakerfi er aflinn nú helmingi minni en hann var fyrir daga kvótakerfisins. Er það það verkefni sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er að fara með þessar 600–700 milljónir í? Á að leita skýringa?

Ég tel vert að spyrja sig einmitt gagnrýninna spurninga hvað varðar árangursleysi og þá sorgarsögu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur skilið eftir sig í sjávarútvegsráðuneytinu og er enn að vinna að. Eftir 20 ára starf með kvótum og stjórnun er þorskaflinn helmingi minni. Og ekki nóg með það, heldur er viðmiðunarstofn þorsksins líka minni. Hvar sem borið er niður er árangursleysið algert. Það má vel vera að það þurfi að fara með aukna fjármuni í hafrannsóknir en þá verða menn líka að þora að spyrja gagnrýninna spurninga.

Gagnrýni hefur komið víða að á hafrannsóknir og á árangursleysið hvað varðar það að byggja upp þorskstofninn. Það hefur meira að segja komið gagnrýni frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Í fréttablaði samtakanna, Útveginum, mátti á dögunum lesa að stofnvistfræðingur samtakanna, Kristján Þórarinsson, teldi ráðgjöf Hafró hafa valdið miklum vonbrigðum.

Ég tel að við eigum heimtingu á því að vita hvaða verkefni verið sé að fara í. Það er engin spurning að þetta er mikil sorgarsaga, algerlega misheppnuð ráðgjöf sem og þessar rannsóknir. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hlýtur að hafa á takteinunum eða vilja útskýra fyrir okkur hvaða verkefni það eru sem hann vill að þessir fjármunir fari í.

Staðreyndin er sú að aflaregla sem stofnunin hefur notað hefur engu skilað. Engu. Árið 1992 þegar þessi regla var tekin upp var þorskaflinn 100 þús. tonnum meiri en hann er nú. Það hlýtur að valda vissum áhyggjum að eftir að hafa notað þessa reglu svo lengi sé þorskaflinn 100 þús. tonnum minni. Hvað veldur? Menn skulda svör við þessum spurningum.

Á dögunum mátti lesa í Morgunblaðinu frétt þar sem rætt var við fiskverkanda í Grindavík. Hann sagði frá því að þorskurinn nú væri óvenjuhoraður og með tóman maga. Í framhaldinu vöknuðu þær spurningar hvort æti skorti. Sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun sagði að það væri ekki merki um ætisskort í hafinu. Ég óska eftir því að hæstv. sjávarútvegsráðherra greini okkur frá því hvort það hafi komið fram í ralli Hafrannsóknastofnunar á dögunum að það væri ekki ætisskortur. Ég er líffræðingur og hefði einmitt talið að minnkandi vöxtur væri merki um ætisskort, og ekki einungis minnkandi vöxtur heldur tómur magi. Þess vegna tel ég að Hafrannsóknastofnun þurfi að gera betur grein fyrir því.

Með því að engir fjármunir fari til þessa málaflokks, þ.e. varðveislu gamalla skipa og atvinnusögu, heldur til Hafrannsóknastofnunar eða til hafrannsókna, þá hljóti að vera einhver verkefni. Ég óska eftir því að hæstv. sjávarútvegsráðherra greini okkur frá því hvaða verkefni það eru sem hann ætli að fara að rannsaka.

Það sem kannski hefur verið ömurlegt í málflutningi hæstv. ráðherra er að hann talar um að stjórnarandstaðan sé á móti hafrannsóknum vegna þess að hún vill veita ákveðna fjármuni til varðveislu báta og gamalla skipa. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum að halda þvílíku fram. Það er svona álíka og fjármunir séu veittir til húsafriðunar, þá séu hv. þingmenn á móti því að verið sé að veita fjármuni til rannsókna á sviði byggingarmála. Þetta er náttúrlega mjög veikur grunnur að byggja á og ómerkilegt.

Það eru fleiri sem hafa lýst yfir áhyggjum af því að veita skuli svo litla fjármuni til varðveislu skipa og báta. Það má lesa grein í Morgunblaðinu þriðjudaginn 5. október sl. Þar skrifar grein Jóhann Ásmundsson og Ágúst Ólafur Georgsson um vernd skipa og báta með menningarsögulegt gildi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það er sorglegt hvað stjórnvöld ætla að draga lengi fæturna í að sinna þessum mikilvæga þætti íslenskrar sögu, sem er skipasmíðaarfur þjóðarinnar og strandmenning. Máli sem þessu er ekki lengur hægt að skjóta á frest og verður að finna á því viðunandi lausn. Hvað þarf til að vekja þetta mál til lífs og setja það á þann stall sem því ber er erfitt að segja. Eitt er þó víst að ríkisstjórnin með menntamálaráðherra í broddi fylkingar verður að gera þetta að sínu máli og vinna að því sérstaklega.“

Jóhann Ásmundsson er formaður Félags íslenskra safna og safnmanna, Ágúst Ólafur Georgsson er fyrrverandi deildarstjóri Sjóminjasafns Íslands, en Sjóminjasafnið var lagt niður haustið 2003.

Ég hefði talið að hér væri í rauninni um gott mál að ræða fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra að sýna lit og snúa við blaðinu. Undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, því miður, hefur farið á verri veg á ýmsa lund. Bæði hefur afli minnkað eins og áður segir og síðan hefur flokkurinn ekki gert menntun í atvinnugreininni mjög hátt undir höfði. Til dæmis er búið að leggja niður báða fiskvinnsluskóla landsmanna. Það er mjög sérstakt að þjóð sem lifir af sjávarútvegi skuli leggja niður alla menntun á sviði fiskvinnslu. Það er mjög sérstakt.

Þegar maður spyr hæstv. menntamálaráðherra varðandi þau efni er eins og það skipti engu máli. Það eru önnur og mikilvægari verkefni sem hæstv. menntamálaráðherra vill viðhafa, svo sem að kenna lögfræði í fjölmörgum skólum, en undirstöðuatvinnugreinin, það er eins og hún sé látin róa, hún skipti engu máli. Menn spyrja ekki gagnrýninna spurninga þó svo þorskafli og þorskstofninn sé miklu minni. Nei, það er bara haldið áfram. Og áfram með sömu kennisetningarnar og ekki spurt gagnrýninna spurninga.

Ég hefði talið að ef á að veita aukið fjármagn til hafrannsókna og ég er tilbúinn að styðja það þó svo ég telji einnig mjög mikilvægt að það fari til varðveislu gamalla báta og skipa, þá fari það ekki alveg á einn stað, heldur að einhverjir fjármunir fari til frjálsra verkefna eða einhverra sem eru utan þessarar stofnunar, það verði einhver samkeppni á sviði hugmynda og vísinda. Komið hefur upp mjög málefnaleg gagnrýni á Hafrannsóknastofnun. Ýmsir eru farnir að leggja við hlustir. Því miður virðist eins og stofnunin svari helst ekki ef hún kemst hjá því í staðinn fyrir að fagna allri umræðu og allri gagnrýni á stofnunina, en þannig ganga vísindin fyrir sig. Vísindin eru náttúrlega vettvangur gagnrýninna hugsana og menn fagna því ef menn fá gagnrýni, en svo er ekki þegar Hafrannsóknastofnun á í hlut. Til dæmis hefur komið fram mjög málefnaleg gagnrýni frá fyrrum þingmanni Sjálfstæðisflokksins þar sem hann gagnrýnir að Hafrannsóknastofnun skuli hagræða bókhaldi eins og hann kallar það, að fiskstofnar séu endurmetnir og þeim ýmist fjölgað eða fækkað í veiðistofni eftir því sem hentar í reiknilíkani stofnunarinnar. Það á náttúrlega ekki að vera. Ef við ætlum að ná árangri bæði á sviði hafrannsókna og annarra vísinda eiga menn að fagna gagnrýni.

Ég tel einmitt að hæstv. sjávarútvegsráðherra eigi að segja okkur frá því hvað það er sem kallar á alla þessa fjármuni núna. Hvað er það sem kallar á þessa fjármuni núna? Hvaða verkefni eru það? Er það árangursleysi Sjálfstæðisflokksins við að stjórna hér, eða hvað er það? Er það togararallið, eru menn að fá upplýsingar úr því?

Ég tel að ýmsum spurningum sé ósvarað. Ég vona að hæstv. sjávarútvegsráðherra svari einhverju um hvað það er og hvaða verkefni þetta eru sem kalli á alla þessa fjármuni. Það er eins og ekki sé hægt að sjá á eftir örfáum krónum eða einhverri upphæð til varðveislu gamalla skipa þó svo að þingmenn stjórnarliðsins hafi samþykkt það fyrir nokkrum árum. Ekki hafa þessir gömlu bátar lagast af sjálfu sér. Hvað er það sem breytir forgangsröðinni nú hjá Sjálfstæðisflokknum? Er það enn ein svört skýrsla sem er á leiðinni eða eigum við von á einhverri bjartari, t.d. úr togararallinu?

Ég tel að hæstv. ráðherra skuldi okkur einhver svör hvað það varðar, vegna þess að því miður hefur Hafrannsóknastofnun og sú fræði að spá með stofnlíkönum ár og áratugi fram í tímann algerlega misheppnast. Eins og ég sagði áður fyrr í ræðu minni er þorskaflinn nú helmingi minni en fyrir daga kvótakerfisins og hann er 100 þúsund tonnum minni áður en aflaregla var tekin upp. Maður fær í rauninni engar skýringar. Þegar beðið er um skýringar er vísað í einhverja skýrslu þar sem sömu menn koma við sögu og bjuggu til aflaregluna. Það voru nákvæmlega sömu menn með tveimur undantekningum og bjuggu til aflaregluna, tíu manna hópur ef ég man rétt, þeir voru látnir dæma eigin verk og gera úttekt á þeim. Þess vegna finnst mér rétt að hæstv. sjávarútvegsráðherra skýri okkur frá því hvort til standi að setja á fót annan hóp, vegna þess að hann hlýtur að sjá það, ef maðurinn spyr sig á annað borð gagnrýninna spurninga öðru hverju, hvers vegna hann nær ekki árangri í starfi, en það sjá allir sem eitthvað skoða þessa hluti að árangurinn er enginn, helmingi minni afli og minni stofnar. Ætlar hæstv. ráðherra að nota þessa fjármuni til að fara í úttekt á t.d. Hafrannsóknastofnun?

Hvað stendur til? Hvers vegna er ekki hægt að veita örfáar milljónir t.d. í augljós verkefni sem blasa við til að bjarga skipi eins og Sigurfara á Akranesi? Hvað er það sem kallar á? Það hljóta að vera einhverjar áætlanir um að nota þessa fjármuni.

Við höfum séð að verið er að spá jafnvel áratugi fram í tímann um stærð fiskstofna með algjörlega misheppnuðum hætti. Mér finnst hæstv. ráðherra skulda okkur og í rauninni þjóðinni skýringar, þjóðin hlýtur að hafa áhyggjur af þessu, að enginn árangur næst.

Við í stjórnarandstöðunni bjóðum þeim 49 þingmönnum, við bjóðum í rauninni þeim stjórnarliðum sem samþykktu umrædda þingsályktunartillögu, að nota hluta fjárins sem kemur frá þróunarsjóði til að varðveita gömul skip og báta, að standa við orð sín. Ég á ekki von á öðru en menn reyni einhvern veginn að bjarga sér frá þessu og kasta ekki frá þessu tækifæri. Það hlýtur líka að koma upp spurning hjá hæstv. ráðherra að verða ekki sá ráðherra sem verður helst minnst fyrir að halda í ónýtt kerfi sem skilar helmingi minni afla, hann geti þó bent á einhvern bát t.d. uppi á Akranesi: Þetta var mitt verk.

Ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra vilji ekki eiga einn bát t.d. á Akranesi eða Siglufirði sem hann geti bent á: Ég stóð nú ekki eingöngu fyrir ónýtu kvótakerfi, ég bjargaði einum báti! Nei. Það hlýtur að vera að hæstv. ráðherra kasti ekki frá sér þessu tækifæri, þessu gullna tækifæri til að standa við samþykktir Alþingis og þá þingsályktunartillögu sem var samþykkt hér og noti eitthvað af þeim fjármunum til að varðveita gamla báta, en ef ekki þá hlýtur hann að hafa einhverjar áætlanir um hvernig hann ætli að nota þetta fjármagn. Á að fara að gera einhverja allsherjarúttekt?