131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[16:17]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum hér um mikilvægt mál. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir landsbyggðina vegna þess að þar á eftir að ganga frá fráveitum. Hér á höfuðborgarsvæðinu er framkvæmdum lokið. Þess vegna er ég nokkuð hissa á að sjá ekki framsóknarmenn í þingsalnum og á því að þeir taki ekki þátt í umræðunni. Að vísu kom hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason með gott innlegg í umræðuna en þetta sýnir e.t.v. stöðu þessa flokks þegar rætt er um landsbyggðarmál, mál sem skipta hinar dreifðu byggðir miklu, að þá mæta menn ekki og taka ekki til máls, sérstaklega þegar rætt er um stefnubreytingar og mikilvæg mál sem skipta verulega miklu fyrir dreifðari byggðir.

Í greinargerð með frumvarpinu er fullyrt að vart hafi orðið mikils áhuga á einkaframkvæmdum hvað varðar fráveitumál. Ég verð að segja að ég hef fylgst mjög náið með fráveitumálum undanfarin ár og áratug en ég hef aldrei orðið var við þennan mikla áhuga á einkaframkvæmdum. Ég átta mig í raun ekki á því hvers vegna menn opna fyrir leiðir til slíkra framkvæmda án þess að ræða nánar um hvernig eigi að taka á einkaframkvæmdum á þessu sviði. Við erum að tala um einkaframkvæmd á fráveitu. Það verða ekki til margar fráveitur frá hverju byggðarlagi þannig að þar horfa menn fram á einokunaraðstöðu. Ég óska eftir því að hæstv. umhverfisráðherra geri grein fyrir því hvort hún hafi hugsað sér að viðkomandi fyrirtæki verði í eigu viðkomandi sveitarfélags eftir eitthvert árabil. Hafa menn hugsað þann leik? Nú þarf þessi einkaframkvæmd að reka sig og viðkomandi fráveita þarf að hafa tekjur til að borga niður skuldir. Gera menn ráð fyrir að viðkomandi fráveita, rekin í einkaframkvæmd, geti t.d. sett upp sérstaka gjaldskrá og innheimt kostnað fyrir því sem rennur í gegnum hana, sett t.d. upp mæla á fyrirtæki? Ég tel að það væri ein leið, að einmitt þeir sem nota fráveituna greiði fyrir.

Hefur umhverfisráðherra hæstv. hugsað um hvernig viðkomandi fráveita verði rekin? Ég tel það mjög mikilvægt vegna þess að það snertir ekki eingöngu heimspekilegar spurningar um tekjur, hver græði og hver græði ekki, heldur um samkeppni fyrirtækja. Viss fyrirtæki þurfa að koma frá sér verulegu magni af vatni. Ég hefði talið að þetta væri einmitt mikið hagsmunamál fyrir Samtök atvinnulífsins, að ræða hvernig menn hyggjast ná fram tekjum í þessari framkvæmd, að menn verði ekki settir í einhverja einokunaraðstöðu. Það má skoða þetta út frá ýmsum fyrirtækjum, svo sem sláturhúsum sem þurfa að koma miklu vatni frá sér. Hvernig hyggjast menn t.d. fá greiðslur frá sláturhúsi? Ætlar hæstv. umhverfisráðherra að koma upp mælum eða hvað vakir fyrir hæstv. ráðherra með að opna á einkaframkvæmd í þessum geira og koma á einokunaraðstöðu? Það liggur ljóst fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn mun með þessu koma á einokunaraðstöðu hjá einkafyrirtæki sem eignast fráveitukerfin.

Ég hefði talið nær að viðkomandi sveitarfélag ætti fráveituna. Síðan mætti mögulega bjóða út rekstur hennar. Þar gæti verið um einhvers konar einkarekstur að ræða. Ég sé ekkert vit í öðru en að menn útskýri hvað þeir meina með þessu. Einnig verða menn að forgangsraða í umhverfisráðuneytinu. Það er leitt til þess að vita að þegar taka þarf á í fráveitumálum hinna dreifðu byggða skuli umhverfisráðuneytið eingöngu beina sjónum að algjöru smáatriði en ekki að stóra vandanum, vanda sem blasir við sveitarfélögum eins og Skagafirði þar sem ég bý og fleiri stöðum, Siglufirði og Ísafirði. Þar spyrja sveitarstjórnarmenn hvernig skuli framkvæma. Hvað er skynsamlegt að gera í viðkomandi sveitarfélagi? Ég reyndi einmitt að beina sjónum fyrrum umhverfisráðherra, hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, að því að nauðsynlegt væri að hafa skýrar reglur. Sveitarfélögin eru ekki viss um það hvaða framkvæmd er skynsamleg.

Í lögunum sem til stendur að breyta nú, það eru breytingar sem ég tel litla nauðsyn á, þ.e. að opna á einkaframkvæmdir, er ekki tekið á því að nær væri að styrkja undirbúningsrannsóknir. Það er miklu skynsamlegra. Hæstv. umhverfisráðherra ætti einmitt að breyta 3. gr. laganna á þann veg að heimilt verði að styrkja undirbúningsrannsóknir.

Í andsvari fyrr í umræðunni sagði hæstv. umhverfisráðherra að 3. gr. væri ekki breytt hvað það varðar. Ég hefði einmitt talið skynsamlegast að færa áherslurnar þangað til að hægt yrði að nota þau þrjú ár sem fyrirhugað er að leyfa styrkveitingar í viðbót, þ.e. allt til 2008, þannig að sveitarfélögin á landsbyggðinni geti fundið út hvaða framkvæmd sé skynsamlegust. Þeim er það ekki ljóst í dag.

Krafan til sveitarfélaganna kemur fram í reglugerð nr. 798/1999. Ég hef lesið hana með ýmsum sveitarstjórnarmönnum og við höfum reynt að fá botn í hvað hún merkir. Ég hef meira að segja spurt fyrrum umhverfisráðherra út í umrædda reglugerð og hvernig beri að túlka hana. Ég spurði hana hér á þingi og verð að segja að svörin voru ekki mjög markviss.

Í reglugerðinni kemur fram að hreinsa eigi skólp að sama hundraðshluta, t.d. lífrænt efni frá byggð sem telur 600 eða 700 manns eins og á Skagaströnd og Reykjavík, þar sem eru um 100 þúsund manns, þ.e. að hreinsa eigi 20% af öllu lífrænu efni frá 600 manna byggðarlagi og síðan 20% af öllu lífrænu efni frá Reykjavík. Segjum, til að einfalda reikningsdæmið, að á Skagaströnd byggju þúsund manns. Þá ætti að leyfa 800 einingum af lífrænu efni að fara í sjóinn á Skagaströnd frá Reykjavík mættu fara 80.000 einingar. Þetta er bara della. Þetta hef ég ítrekað bent hæstv. ráðherrum á að gangi ekki upp og menn eigi ekki endilega að hugsa um að hreinsa þessar 200 einingar, þetta lítilræði, frá litlum byggðarlögum. Það er einfaldlega óskynsamlegt.

Það er ekki að ástæðulausu sem ég hef bent á þetta heldur kom fram í ágætri skýrslu frá Náttúrustofu Vestfjarða að það er allt að fimm sinnum dýrara að hreinsa skolpið á hvern íbúa á landsbyggðinni í samanburði við Reykjavík. Þar er það hreinsað sem ekkert er og gífurlegur kostnaður lagður í það. Ég tel að í raun ætti að vera forgangsverkefni Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og umhverfisráðherra hverju sinni að skýra reglurnar þannig að sveitarfélögin viti hvert þau eiga að stefna. Það lýsir ef til vill viðhorfinu að banna undirbúningsrannsóknir, að rannsaka til undirbúnings þannig að eitthvert vit verði í framkvæmdinni, það er bannað samkvæmt lögunum. Ég skora á hæstv. ráðherra að huga að þessu. Þetta er mjög óskynsamlegt að öllu leyti.

Fleiri orð mætti hafa um þetta frumvarp. Það er t.d. er íhugunarefni, fyrirhyggjuleysið sem kemur hér fram, að menn horfi stöðugt á aukaatriðin í staðinn fyrir að beina sjónum að aðalatriðum málsins og nota þessi þrjú ár sem eftir eru til að leysa vanda hinnar dreifðu byggðar. Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra að svara því á eftir hvort hún hyggist fara yfir reglugerðina sem ég nefndi áðan, nr. 798/1999 þannig að sveitarfélögin á landsbyggðinni þurfi ekkert að velkjast í vafa um hvaða reglur gilda. Það er nefnilega svigrúm til að móta þær reglur.

Reglurnar eru settar vegna Evrópusambandsins, það er rétt. En Evrópusambandið hefur ákveðið svigrúm. Þar segir að þar sem búa færri en tíu þúsund íbúar eigi að vera viðunandi hreinsun. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Það verður að skýra út og umhverfisráðuneytið verður að taka á sig rögg og útskýra hvað er viðunandi hreinsun. Hvað eiga þessi sveitarfélög að gera þannig að menn geti tekið skynsamlegar ákvarðanir. Það er nefnilega ekki skynsamlegt að hreinsa það sem ekkert er og verja fjármunum lítilla sveitarfélaga í framkvæmdir sem ekki er mikil þörf á.

Það er ósk mín að umhverfisráðuneytið noti þá fjármuni til að fara í undirbúningsrannsóknir svo sveitarfélögin þurfi ekki að vera varnarlaus, eins og ég vil kalla það, gagnvart tillögum sem koma frá verkfræðistofum heldur standi þau á jafnræðisgrundvelli, hafi einhverjar rannsóknir og skýrar reglur um hvað er skynsamlegt að fara út í og geti þá tekið ákvarðanir út frá því.

Að lokum tel ég rétt að minna á að þau sveitarfélög sem eiga eftir að fara í framkvæmdirnar eru mörg hver á landsbyggðinni. Þess vegna brá mér þegar ég las byggðaáætlun sem hæstv. iðnaðarráðherra og byggðamálaráðherra gaf út þar sem er talað um að þetta sé einhver sérstakur styrkur eða einhver byggðaáætlun. Mér finnst það vera algjör rangtúlkun vegna þess að þetta eru framkvæmdir sem fara þarf í úti um allt land, ekki eingöngu á höfuðborgarsvæðinu eða eingöngu á landsbyggðinni, og hið opinbera tekur að litlum hluta þátt í að greiða kostnaðinn. Gera verður þá kröfu að yfirvöld skýri reglurnar þannig að minni sveitarfélögin viti hvað er skynsamlegt að fara út í. Í Reykjavík eru margir sérfræðingar og hægt að fara yfir það.

Ég tel að þær framkvæmdir og sú hreinsun sem farið var í á höfuðborgarsvæðinu sé með allra minnsta móti miðað við það sem gerist erlendis. Ég er ekki að segja að það sé óskynsamlegt, vegna þess að viðtakinn, þ.e. sjórinn, á höfuðborgarsvæðinu þolir bæði hina lífrænu mengun sem er veitt út í Faxaflóa og svifagnið. Ég er sannfærður um að svo er einnig á landsbyggðinni. Margar hinar smærri byggðir eru við opið haf og kannski þarf ekki að fara í mikla hreinsun, ef til vill er það ekki skynsamlegt. Þess vegna á hæstv. umhverfisráðherra að fara yfir reglur Evrópusambandsins, gaumgæfa þær og reyna að túlka þær með þeim hætti að menn séu ekki að stofna til kostnaðar hjá þeim sveitarfélögum á landsbyggðinni sem standa ekki allt of vel.