131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga.

627. mál
[12:32]

Fyrirspyrjandi (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Lög um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga tóku gildi 1. júlí 1997. Tilgangur sjóðsins er að vera tryggingasjóður vegna atvinnuleysis sjóðfélaga.

Sjóðfélagar eru í fyrsta lagi bændur sem stunda búrekstur í atvinnuskyni og undir búrekstur fellur hvers konar búfjárrækt.

Í öðru lagi smábátaeigendur. Útgerðaraðilar smábáta undir 10 brúttótonnum sem hafa leyfi til að veiða í atvinnuskyni.

Í þriðja lagi vörubifreiðastjórar sem stunda leiguakstur eigin vörubifreiðar samkvæmt lögum um leigubifreiðar.

Í fjórða lagi. Aðrar starfsgreinar sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Eins og nafn sjóðsins gefur til kynna eru í honum einstaklingar sem hafa með höndum sjálfstæðan atvinnurekstur sem hafi fátt eða ekkert starfsfólk í vinnu og flestir sjóðfélagar flokkast því sem einyrkjar. Tilgangur sjóðsins er að vera Tryggingasjóður vegna atvinnuleysis sjóðfélaga af einhverjum orsökum, svo sem vegna loka sjálfstæðrar starfsemi. Allt frá upphafi hafa bændur gagnrýnt mjög sjóðinn, gagnrýnt að þeir séu að greiða í hann vegna þess að þeir hafa mjög litla möguleika á að fá greitt úr sjóðnum nema með því að hætta allri starfsemi.

Fjármunir hafa safnast fyrir í Tryggingasjóðnum á síðustu árum og hafa bændur áhuga á að það sé kannað hvort og þá hvernig hægt væri að greiða út greiðslu sjúkradagpeninga eða á hvern hátt væri hægt að nýta þá fjármuni í þágu bænda. Við vitum að bændum fækkar ár frá ári og því hlýtur greiðendum í sjóðinn einnig að fækka og það hefur enn fremur áhrif á sjóðinn að þeir bændur sem stofna einkahlutafélög um rekstur búa sinna hætta líka að greiða í sjóðinn. Aðalatriðið er því hvernig er hægt að nýta þá fjármuni best til góða fyrir sjóðfélaga. Spurningar mínar til hæstv. félagsmálaráðherra, Árna Magnússonar, eru eftirfarandi:

Hvað greiddu bændur til Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga árlega á tímabilinu 1998–2004?

Hvað fengu bændur árlega í atvinnuleysisbætur á sama tímabili?

Hvaða önnur útgjöld hefur A-deild sjóðsins, sbr. 16. gr. reglugerðar nr. 317/2003?

Hversu mikil er uppsöfnuð innstæða bænda?

Sér ráðherra ástæðu til að breyta reglum um atvinnuleysistryggingar bænda að fenginni reynslu þannig að greiðslur frá þeim nýtist bændum betur?