131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Fræðsla um samkynhneigð.

500. mál
[13:55]

Lára Stefánsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna viðbrögðum menntamálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur og sérstaklega að tekið verði tillit til þessa málaflokks við endurskoðun námskráa. Vil ég þá minna á að framhaldsskólanemendur t.d. sem eru að vakna til kynvitundar og skilgreina kynhneigð sína hafa átt örðugt, sem ég þekki frá framhaldsskólakennslu, og að foreldrasamtök samkynhneigðra á Akureyri eða Norðurlandi ætla einmitt í samstarfi við Samtökin ´78 að halda ráðstefnu á föstudaginn sem ber heitið: Hver er sá veggur?

Ég vil sérstaklega brýna fyrir hæstv. menntamálaráðherra að huga að kennslu í íþróttum. Þar rekast þeir nemendur sem eru samkynhneigðir helst á veggi og eiga mjög erfitt.

Síðan vil ég fagna og minna á að það eru einmitt skólar undir ráðuneyti hæstv. menntamálaráðherra sem standa að þessari ráðstefnu fyrir norðan. Ég hvet eindregið til þess að samkynhneigð sé mjög skýrt skilgreind í námskrám og ekki falin undir öðrum orðum.