131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri.

611. mál
[14:50]

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er alltaf sárt þegar störfum fækkar á landsbyggðinni og ekki síst í sauðfjárræktarhéraði eins og í Skaftafellssýslum. En heimurinn er harður hvað þetta varðar og þetta er þáttur í atvinnuháttabreytingu, þ.e. hagræðingarkrafan. Lenging sláturtíma upp í 5–6 mánuði á ári gerir það að verkum að það er hagkvæmara fyrir viðkomandi fyrirtæki að sameina vinnslu sína, sláturtíma og vinnslu á þessum afurðum, og þess vegna er þessi leið farin.

Benda má á að Sláturfélag Suðurlands er eitt elsta sláturfélag á landinu og úrvinnslufélag á þessu sviði og hefur aldrei annað en staðið við skuldbindingar sínar við bændur. Heimamenn á Kirkjubæjarklaustri og nágrenni eru áræðnir, hafa tekið höndum saman og eru að leggja í starf samhliða og með Atvinnuþróunarsjóði Suðurlands um atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Mér finnst góður tónn í fólkinu miðað við þær aðstæður sem það býr við núna.