131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Söfn og listaverk í eigu Símans.

632. mál
[15:48]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Svar hæstv. fjármálaráðherra er með endemum. Það er lýsandi fyrir vinnubrögðin og hrokann sem hefur einkennt framgöngu stjórnvalda í þessu einkavæðingarferli öllu saman.

Svarið er: Þetta er orðið hlutafélag og það eru aðrir eigendur komnir með ríkinu inn í myndina og þar með þarf ekkert að hugsa um þetta meir. Engra upplýsinga er aflað til að byggja svar við fyrirspurninni á einhverjum staðreyndum, t.d. um hvað Síminn raunverulega á af listaverkum eða öðrum verðmætum sem eftirsjá væri að fyrir hið opinbera að missa úr sinni hendi.

Þvættingur af því tagi að ekki sé hægt að leysa það mál á meðan ríkið á tæp 99% hlutabréfa í fyrirtækinu er ekki á borð berandi í þingsölum. Halda menn virkilega t.d. að það væri ofvaxið fjármálaráðuneytinu, einkavæðingarnefnd og öllu batteríinu, að ganga þannig frá málum að ríkið leysti þá til sín í formi verðmæta sem greiðslu fyrir einhvern hluta af söluverðinu þau verðmæti sem það vill ekki missa af höndum? Ráða menn ekki við það? Ráða menn þá við að selja Símann? Nei, auðvitað gera menn það ekki, enda sjá allir með hvílíkum endemum á að standa að þessu öllu saman.

Ég hélt satt best að segja að lexían frá bönkunum hefði kennt mönnum eitthvað. Það er auðvitað hægt að segja sem svo að af því að menn voru svo gjörsamlega sofandi þegar þeir gerðu hina fyrri mislukkuðu tilraun til einkavæðingar, sem hefur þýtt að um 1% er í eigu annarra aðila, þá sé þetta of seint. En það er ekki einu sinni of seint. Það er ekkert vandamál að ganga frá málinu með þessum hætti sem ég hef hérna verið að draga upp, t.d. að ríkið ósköp einfaldlega sorteri þetta og haldi eftir því sem það vill halda eftir og láti það koma fram í uppgjörinu fyrir greiðslu á fyrirtækinu.

Að sjálfsögðu veit ég að þessir hluthafar, sem þarna eru að uppistöðu til starfsmenn og svo undirritaður sem eiga þetta á móti ríkinu, mundu ekki fara með háværum mótmælum gegn því jafnvel þó ríkið einfaldlega tæki þetta til sín. Þetta er ekki á borð berandi, framganga af þessu tagi. (Forseti hringir.) Ef menn háeffa Póstinn, verður þá frímerkjasafnið bara látið deyja inn í hann með sama hætti?