131. löggjafarþing — 105. fundur,  6. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[16:08]

Halldór Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta er mjög undarleg umræða. Ég hélt að hv. þingmönnum væri kunnugt um að það kemur iðulega fyrir að hér séu lögð fram frumvörp til breytingar á lögum. Þó að Alþingi hafi samþykkt eitthvað í fyrndinni þá koma kosningar og nýir alþingismenn. Það er staðnaður hugsunarháttur að halda að þeir menn sem sitja á hinu háa Alþingi í dag séu bundnir við ályktun sem samþykkt var fyrir fimm árum. Ég veit ekki hversu lengi hv. þingmenn þurfa að sitja á Alþingi til að læra það að það er þingvilji Alþingis hverju sinni sem skiptir máli varðandi afgreiðslu mála. (Gripið fram í.)

Þegar hv. þingmenn gefa svo í skyn að ráðherra eða aðrir hafi brugðist með því að leggja ekki fé úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins til varðveislu gamalla skipa þá stendur um hlutverk Þróunarsjóðsins í 1. gr. — Ég sé að hv. 5. þm. Norðausturkjördæmis, Steingrímur J. Sigfússon, er farinn að flissa og er órólegur í salnum því að hann hefur farið með rangt mál í sínum málflutningi.

En það er svo um hlutverk Þróunarsjóðsins, eins og hann var samþykktur, að í 1. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutverk Þróunarsjóðs sjávarútvegsins er að taka við þróunarsjóðsgjöldum skv. 4. og 6. gr., fara með og selja eignir og hlutabréf í eigu sjóðsins skv. 11. gr., fara með og selja hlutabréf í eigu hlutafjárdeildar skv. 12. gr., innheimta skuldabréf í eigu atvinnutryggingadeildar skv. 13. gr. og greiða skuldbindingar sjóðsins. Þá skal Þróunarsjóður sjávarútvegsins taka lán til að fjármagna kaup eða smíði á rannsóknarskipi fyrir Hafrannsóknastofnunina.“

Svo mörg voru þau orð og ekki fram yfir það. Markmið Þróunarsjóðs er skýrt í lögum og enginn þeirra þingmanna sem hér hafa tekið til máls hefur flutt, svo ég muni, frumvarp á Alþingi um breytingu á þessu markmiði og tilgangi sjóðsins. Þar kemur fram hinn raunverulegi vilji. (Gripið fram í.) Ekki hafa þeir gert það á umliðnum árum.

Að auki vil ég benda hv. þingmönnum á, ekki síst hv. þm. Jóni Bjarnasyni, eins og hann talar stundum um fjárlög, að Alþingi ákveður hvaða fjárveitingar eru veittar til varðveislu gamalla skipa. En við þingmenn Norðausturkjördæmis vitum vel og er kunnugt um og þykir vænt um að verulegum fjármunum hefur verið varið til þess, m.a. í Síldarminjasafninu á Siglufirði, til bátahússins þar og gamalla skipa sem þar eru. Meiri hluti Alþingis hefur því staðið við það sem hann sagði, að leggja fram verulegt fé til varðveislu gamalla skipa eins og gert er ráð fyrir í þingsályktuninni.