131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[11:14]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nýta mér réttinn til að fara í andsvar og gera litla athugasemd. Hér er verið að breyta lögum um lífeyrissjóð og fram kemur í greinargerð frumvarpsins að sjóðurinn stefni í þrot miðað við stöðuna núna og verið sé að opna möguleikann á að hækka iðgjald sjóðsfélaga, þ.e. hækka iðgjöldin á bændur. Ég saknaði þess svolítið í ræðu hæstv. fjármálaráðherra að heyra örfá orð um hvernig þetta geti hugsanlega litið út fyrir bændurna. Er líklegt að þeir fari að greiða meira inn? Nú er búið að skerða réttindin talsvert og þau eru komin niður í lágmarksréttindi, eins og ég skil málið. Athyglisvert væri að heyra hvort hæstv. ráðherra geti upplýst þingheim eitthvað örlítið meira um hvernig þetta gæti komið út fyrir bændur í framtíðinni þó að sjálfsögðu sé ekki búið að semja.