131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra.

[15:19]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða skýrslu sem unnin var af nefnd sem menntamálaráðherra setti á laggirnar í þessu máli. Niðurstaðan er afar jákvæð eins og hér hefur verið fjallað um í dag en það er kannski rétt að rifja aðeins upp upphaf málsins.

Ætli orrahríðin sem var um fjölmiðladeilurnar síðasta vor og á sumarþingi liðins árs hafi ekki verið að mestu leyti óþörf þegar litið er til þeirrar sameiginlegu niðurstöðu sem nú liggur fyrir í þessu máli, þ.e. í þessari skýrslu sem við erum að ræða? Það er einfaldlega svo að þegar allir fengu að koma að þessari málefnavinnu var verklagið allt annað. Sem betur fer hefur hagur almennings, sýnist mér, haft forgang, a.m.k. eins og ég met þetta mál í þeirri stöðu sem það er í í dag eftir störf nefndarinnar.

Sá veldur miklu sem upphafinu veldur. Það er fyllilega ljóst að forustumenn ríkisstjórnarinnar sáust ekki fyrir í ofríki sínu í fjölmiðlamálinu á síðasta ári. Tvímenningsvald fyrrverandi og núverandi hæstv. forsætisráðherra lék í raun og veru lausum hala og nánast allir stjórnarliðar fögnuðu, ekki bara einu sinni, heldur fimm sinnum, hinni snjöllu valdsmannslausn sem var þó að mínu viti lítið vitræn þegar upp var staðið. Verklagið benti ekki til þess. Stjórnarliðar voru í raun fastir í fúafeni málatilbúnaðar sem var mistök frá upphafi og olli í raun þeim harðvítugu deilum sem urðu og því að forseti Íslands vísaði málinu til þjóðarinnar, skv. 26. gr. stjórnarskrár Íslands. Það varð svo til þess að stjórnarliðar felldu sín eigin fjölmiðlalög úr gildi, sem sagt sneypuför. Þannig endaði sú vegferð, enda mistök og óþörf leið frá upphafi að mínu mati. Má í því sambandi minna á tillögu haustið 2003 á hv. Alþingi sem fulltrúar úr fjórum stjórnmálaflokkum komu að um það hvernig bæri að leggja upp með slíka vinnu til að ná sátt. Þar var lagt til að skipuð yrði nefnd og málið unnið með svipuðum hætti og nú var að lokum gert.

Hæstv. forseti. Málefni Ríkisútvarpsins eru að sjálfsögðu stór hluti þess að tryggja hag og valfrelsi almennings að fjölbreyttu og fræðandi efni. Í því sambandi lýsi ég mig sammála bókun stjórnarandstöðunnar og tek sérstaklega undir eftirfarandi sjónarmið, með leyfi forseta:

„Við erum þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að ná sátt um samræmda heildarsýn fyrir íslenska fjölmiðla sem taki bæði til Ríkisútvarpsins og einkarekinna fjölmiðla. Slíkt er einungis mögulegt ef vinnan við lagasetningu um Ríkisútvarpið fer fram samhliða vinnunni við hina almennu löggjöf.

Sjálfstætt almannaútvarp stuðlar að pólitískri og menningarlegri fjölbreytni og er forsenda þess að fjölmiðlar geti gegnt aðhaldshlutverki og verið útverðir lýðræðis í samfélaginu. Það er mat okkar að eigi að nást víðtæk sátt í samfélaginu um almenna rammalöggjöf um fjölmiðla, eignarhald og starfsumhverfi verði að tryggja faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnvöldum og varðveita það traust sem ríkir milli stofnunarinnar og eigenda hennar, þ.e. þjóðarinnar.“

Þetta var tilvitnun, virðulegi forseti, í hluta af bókun stjórnarandstöðunnar.

Jafnframt er rétt að vekja athygli á því að nefndin í heild leggur til tillögur í sjö liðum sem birtast á bls. 193 undir stafliðunum a–g og þar telur hún æskilegt að þær komi samhliða til framkvæmda. Í a-lið er sett fram að Ríkisútvarpið verði áfram öflugt almannaþjónustuútvarp með áherslu á sérstöðu þess og skyldur.

Það atriði sem mér finnst mestu skipta í tillögu nefndarinnar er það sem snýr að almenningi og almenning varðar sérstaklega, sem sagt gott val neytenda, að reglur tryggi aukið val neytenda og að efnisveitur fái aðgang að ólíkum dreifiveitum, að dreifiveitur hafi flutningsrétt á fjölbreyttu fjölmiðlaefni. Það skiptir nefnilega miklu máli fyrir almenning í þessu landi í framtíðinni að eiga þetta val, að aðgangur að efninu verði ekki takmarkaður og kosti almenning miklu meira en eðlilegt getur talist.

Þetta held ég að menn eigi að horfa alveg sérstaklega á sem árangur af þessu nefndarstarfi og ég fagna því ef menn hafa horft á það í þessu ljósi. Eignarhaldið og takmörk þess koma eingöngu til framkvæmda þegar fjölmiðlafyrirtæki hefur náð meira en 33% útbreiðslu. Þar til eru allir frjálsir með eignarhald sitt og tengsl.