131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra.

[15:38]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða skýrslu nefndar hæstv. menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla. Ég tek undir orð þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað á undan mér og lýst ánægju yfir útkomu þessarar skýrslu og þeirrar niðurstöðu sem hún sýnir.

Mér kom ekki á óvart að nefndarmenn skyldu ná svo góðri samstöðu og vinnu í nefndinni því að þegar leið á haustið 2003 urðu á hv. Alþingi töluvert snarpar umræður um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Í þeim umræðum kom frá öllum sem tóku þátt sú sýn að fara þyrfti í endurskoðun á lögum um fjölmiðla á Íslandi í ljósi þeirrar samþjöppunar og breytinga á markaðnum sem orðið hafa á undanförnum árum. Allir flokkar voru búnir að lýsa yfir mikilvægi þess að fara í þá vinnu. Það er síðan vegna þeirra vinnubragða hæstv. ríkisstjórnar að fara í hana með nefndarskipan án þess að kalla til stjórnarandstöðuna sem þær deilur upphófust og þau átök um lagasetningu um fjölmiðla á Íslandi sem okkur er öllum kunnugt um. Hér hefur verið rifjað upp hvernig atburðarás síðasta vors var á hv. Alþingi, að mínu mati að hluta til vegna þeirra vinnubragða sem notuð voru. Þegar þingflokkar hafa lýst yfir vilja til að fara í þessa vinnu tel ég að það sé ekkert annað að gera en að taka í þá útréttu hönd sem nú hefur verið gert. Niðurstaðan sést í skýrslunni.

Átökin hér síðasta vor sýndu að þjóðin er þess mjög meðvituð hvað fjölmiðlar og rekstur þeirra, áreiðanleiki og útgáfa á mismunandi sviðum, eru mikilvægir enda hafa fjölmiðlar oft verið taldir fjórða stoð lýðræðisskipulags þjóðvelda. Þjóðin var og er meðvituð um mikilvægi þessa og nú stöndum við á þeim tímamótum að fara að vinna að löggjöf í framhaldi af þessari skýrslu um fjölmiðla.

Það er alveg ljóst að margar ítarlegar og góðar tillögur komu frá þessari nefnd sem ég tel að eigi að vinna þverpólitískt að í framhaldinu. Það hefur sýnt sig að frumvarpi af þessu tagi þarf að gefa tíma. Það þarf að gerjast. Það þarf að vanda vel til. Það hefur líka sýnt sig, bæði hvað varðar þætti hér í skýrslunni og í skoðanakönnunum, að Ríkisútvarpið er mikilvægur hluti af þeirri sýn og þeirri fjölmiðlaflóru sem við erum að fara að mynda hér löggjöf um. (Forseti hringir.) Því tel ég mikilvægt að það frumvarp um Ríkisútvarpið sem nú á að fara að ræða hér á eftir fái að gerjast og verða hluti af þessari heildarlöggjöf.