131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[18:05]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum málefni Ríkisútvarpsins með framlagningu á nýju frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra. Þar eru lagðar til verulegar breytingar á starfsemi Ríkisútvarpsins með því að færa Ríkisútvarpið í eignarform sameignarfélags. Hefur það verið rætt talsvert í dag og margar spurningar komið fram sem ég ætla ekki að endurtaka sérstaklega en vonast til að hæstv. ráðherra svari síðar í umræðunni.

Þó er eitt sem ég vil víkja sérstaklega að áður en ég legg annað til málanna. Ég vil biðja hæstv. ráðherra um skýringar á því fyrirkomulagi sem gert er ráð fyrir í stjórn stofnunarinnar, sem mér sýnist að muni í langflestum tilfellum verða pólitískt skipuð, þ.e. að það verði meiri hluti á Alþingi á hverjum tíma og viðkomandi ráðherra sem ráði því hvernig sú stjórn verður. Það er því hætt við að áfram verði uppi sú staða að útvarpsstjóri verði pólitískt ráðinn. Þar af leiðandi held ég að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að vera sammála hugleiðingum hv. þm. Marðar Árnasonar áðan í ræðustól um að upp geti komið sama staða og varðandi fréttastjóramálið, umræðu sem er nýlokið í þjóðfélaginu, að mjög líklegt sé að nákvæmlega sama staða geti komið upp og að hún muni koma upp.

Ég held að ákaflega nauðsynlegt sé að reyna að forðast þetta í framtíðinni og vil sérstaklega vekja athygli á þingmáli sem Frjálslyndi flokkurinn lagði fram á Alþingi og hefur verið rætt, hugleiðingar okkar um það hvernig við teljum að ráðning útvarpsstjóra ætti að vera og hvernig við teljum að yfirstjórn útvarpsins ætti að vera.

Við höfum lagt það til í þingsályktun okkar, sem hefur verið flutt á hv. Alþingi fimm sinnum í röð, í fimmta skipti á þessu þingi, að sett væri á fót nefndarskipan og málið unnið sameiginlega af nefnd allra þingflokka, mjög svipað og gert var í fjölmiðlamálinu að lokum þegar menn voru búnir að fara alla þá kollhnísa sem þar voru farnir. Ég held að það hefði verið mjög skynsamlegt af hæstv. menntamálaráðherra að fara slíka leið með tilliti til þeirrar reynslu sem fengin er af fjölmiðlamálinu og þeirrar gæfu sem hæstv. menntamálaráðherra nýtur í dag að hafa fengið þá skýrslu í hendurnar um það mál og þann farveg sem menn hafa lýst að mestu leyti sátt um. Ég ætla því að gefa hæstv. menntamálaráðherra það ráð í mestu vinsemd að skynsamlegt sé að setja málið í þann farveg og að skynsamlegt sé að koma málinu þannig fyrir að á næsta hausti kæmi fram nýtt frumvarp um skipan Ríkisútvarpsins sem tæki mið af fjölmiðlaskýrslunni og því starfi sem þar hefur verið unnið og við stæðum frammi fyrir því á haustdögum að ræða málin í heild sinni, þ.e. fjölmiðlamálið almennt ásamt frumvarpi um Ríkisútvarpið og starfsemi þess.

En aftur að tillögum Frjálslynda flokksins. Við höfum lagt til að yfir Ríkisútvarpinu væri fjölmennt útvarpsráð, eins konar akademía þar sem væru 15 menn, valdir af samtökum og stofnunum samfélagsins, úr menningar- og listaheimi, úr fræðslustofnunum og vísinda- og rannsóknageirum, af landsbyggðinni, frá almannasamtökum o.s.frv. Aðilum víðs vegar að sem mundu skipa sæti í útvarpsráði. Þannig mætti líta á að útvarpsráðið væri þverpólitískt, mörg sjónarmið kæmu þar inn og ráðið hefði nokkuð skilgreint verksvið. Meðal annars fengi ráðið það hlutverk að ráða útvarpsstjóra og stofnunin, þ.e. starfsfólk útvarpsins og útvarpsráð, veldi í sameiningu útvarpsstjóra, eins konar leynileg atkvæðagreiðsla væri um það hver umsækjenda fengi flest atkvæði annars vegar starfsmanna stofnunarinnar og hins vegar útvarpsráðsins. Þetta var sú ábending sem við lögðum til í þingsályktun okkar. Auðvitað er hægt að setja slíkri kosningu alls konar vægi, að útvarpsráðið, fimmtánmenningarnir, hafi ákveðið hlutfall og starfsmenn hafi ákveðið hlutfall. Þetta er alþekkt í margs konar fyrirkomulagi.

Við skulum minnast þess í þessu sambandi að háskólarektor er kosinn almennri kosningu. Við höfum því farið þessa leið við að finna yfirmenn stofnana í þjóðfélaginu. Ég held að með slíku fyrirkomulagi kæmumst við hjá því að hægt væri að merkja ráðningu útvarpsstjóra sérstaklega pólitískt. Menn geta svo auðvitað deilt um það hvort hugmynd okkar að eins konar akademíu eða stóru útvarpsráði sé rétt, hvort þetta sé of mikill fjöldi, of fáir menn eða of lítið samráð miðað við hina ýmsu möguleika í þjóðfélaginu.

Við megum ekki gleyma því að allir stjórnmálaflokkar eru sammála um að Ríkisútvarpið skuli vera til og að Ríkisútvarpið skuli vera almennings- og þjóðarútvarp. Þar sem við erum sammála um það þurfum við auðvitað að reyna að finna því farveg hvernig stofnunin muni starfa á næstu árum og áratugum. Það hlýtur að vera veigamikið hlutverk okkar að ná saman um það.

Annað vandamál í rekstri Ríkisútvarpsins hafa jafnan verið tekjur þess. Í frumvarpi því sem við ræðum er lagt til að settur verði á sérstakur nefskattur á alla nema þá sem ekki greiða í sjóði eldri borgara, þ.e. þá sem eru undanþegnir vegna aldurs eða jafnvel örorku.

Ég held að slíkur nefskattur verði ekki vinsælli en afnotagjaldið, ég er helst á því að hann verði jafnóvinsæll og afnotagjaldið. Þó að við höfum verið með afnotagjaldið og það hafi þótt frekar á skjön við það sem verið hefur er ég ekki viss um að við lagfærum stöðuna með því að fara í nefskattinn. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu í Frjálslynda flokknum að eðlilegast væri að horfa á fjárveitingu af fjárlögum til rekstrar Ríkisútvarpsins úr því að menn eru á annað borð sammála um að Ríkisútvarpið skuli vera til og ég fagna því sérstaklega að um það skuli þó alla vega vera þverpólitísk samstaða á Alþingi.

Hins vegar eru margar hættur fólgnar í þessu frumvarpi, finnst mér, eins og það er sett fram, og fjöldamargt sem hægt er að spyrja um í því sambandi. Ég geri mér hins vegar vel grein fyrir því að það kann að taka í að klára það á fjárlögum hverju sinni að marka Ríkisútvarpinu tekjustofn. En ég spyr á móti, hæstv. forseti, hvort það sé nokkuð betri farvegur eins og nú horfir eða eins og er að gerast hér á landi um þessar mundir þegar ríkisstjórnin er að lækka tekjuskatta, sem stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt mjög, þ.e. aðferðina við það, en í staðinn á að taka upp alls konar aðra skatta, álögur, sértekjur, núna nefskatt á Ríkisútvarpið, síðan sérstakan skatt á húsnæði raforkufyrirtækja sem fer beint inn í raforkuverðið þegar upp er staðið, nýjar álögur í raforkuverði og nýjar álögur eins og boðað er varðandi bifreiðanotkun hér á landi innan kannski tveggja ára. Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, varðandi skattastefnuna sem ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur kallað skattalækkunarstefnu, hvort í raun og veru sé verið að tína hana til baka hægt og rólega með alls konar svona útfærslum og ég set ákveðin spurningarmerki við það. Án þess að ég ætli að fara hér í beina skattaumræðu vekur þetta auðvitað upp ýmsar spurningar.

Ekki hefur verið upplýst í þessari umræðu hverjir sömdu frumvarpið og ég veit ekki hvers vegna ráðherrann vill ekki upplýsa það. Ég sé ekki ástæðu til að það sé ekki upplýst í umræðunni við hverja var ráðslagast um efni frumvarpsins og uppsetningu þess, hvort það sé eitthvað óeðlilegt að það sé upplýst í umræðunni. Ég átta mig ekki á því og spyr þess vegna eins og fleiri, hverjir það eru og hverjir hafi unnið þetta frumvarp.

Rætt hefur verið um auglýsingatekjurnar að því er varðar rekstur Ríkisútvarpsins. Í hugmyndum okkar í Frjálslynda flokknum um auglýsingatekjurnar hefur verið talað um það að e.t.v. væri rétt að skoða þann möguleika að Ríkisútvarpið væri ekki á auglýsingamarkaði, a.m.k. ekki á öllum sviðum starfsemi sinnar, þ.e. almennum auglýsingamarkaði, þó að það væri með þjónustuauglýsingar og auglýsingar um fundi og mannfagnaði og fleiri slíkar auglýsingar, frá Vegagerðinni, aðvaranir og ábendingar frá stjórnvöldum og félagasamtökum o.s.frv., en væri kannski ekki beinlínis að auglýsa baunadósir eða eitthvað slíkt. Við höfðum þá leiðbeiningu í þingsályktunartillögu okkar um Ríkisútvarpið og rekstur þess.

Ég óttast það, hæstv. forseti, og vil láta það koma fram í ræðu minni, að kannski sé hæstv. menntamálaráðherra að setja málið í uppnám. Ef sú verður niðurstaðan að við afgreiðum frumvarpið, sem ég vona að við gerum ekki, það liggur ekki svo mikið á að afgreiða þurfi það í vor, en ef svo er að menn ætli sér að afgreiða málið í vor, kannski í talsverðu ósætti um niðurstöðuna sem af því verður, þá velti ég því fyrir mér, m.a. miðað við bókun stjórnarandstöðunnar við lok fjölmiðlavinnunnar, hvort við séum þá kannski að setja önnur mál í talsvert uppnám.

Ég held að það sé rétt sem fram kemur í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar að Ríkisútvarpið er auðvitað hluti af flórunni og að horfa þurfi á starfsemi þess líka og lagaramma utan um það. Því held ég að það gæti verið mjög skynsamlegt af hæstv. ráðherra, þó að við ræðum málið nú og það fari héðan í nefnd og út til umsagnar o.s.frv., að leggja ekki ofurkapp á að keyra frumvarpið áfram í vor heldur fái það að vera til staðar með öðrum gögnum málsins yfir sumartímann. Menn hafi það þá til hliðsjónar þegar verið er að semja frumvarp á grundvelli fjölmiðlaskýrslunnar fyrir næsta haust og málið komi aftur hingað inn í þeim búningi sem menn þá telja að það eigi að vera í með tilliti til þess sem þar er verið að gera, og hvort ekki megi með samstarfi við stjórnarandstöðuna ná betri sátt um málið, því eins og ég sagði áður virðast allir stjórnmálaflokkarnir vera sammála um að Ríkisútvarpið eigi að vera til staðar sem almannaútvarp og eigi að veita ákveðna þjónustu sem m.a. er talin upp í 3. gr. frumvarpsins, um hlutverk þess. Að vísu má spyrja um ýmislegt þar, t.d. um 2. tölulið 3. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Að senda út til alls landsins og næstu miða a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um kring.“

Ég spyr hvort orðin „næstu miða“ þýði að til standi að draga úr möguleikum til að senda út efni Ríkisútvarpsins, m.a. á langbylgju og miðbylgju eins og nauðsynlegt er vegna fiskimiðanna, og hvaða skilgreiningu menn leggi í orðin „næstu miða“. Eru menn að horfa til baka eða horfa menn fram á veginn? Þýðir þetta að menn ætli t.d. að koma sjónvarpsdagskránni út til allra næstu fiskimiða sem ekki er í dag? Á frekar að horfa á þetta jákvætt en neikvætt, hæstv. menntamálaráðherra?

Ég leyfi mér frekar að horfa á þetta jákvætt en ég átta mig ekki á við hvað er miðað. Langbylgjan er auðvitað neyðar- og öryggistæki að stórum hluta, þ.e. langbylgjan er stundum eini sendingarmátinn sem er til staðar í vondum veðrum. Við þekkjum það þegar örbylgjurnar detta út.

Í athugasemdum við frumvarpið í kaflanum Meginefni frumvarpsins segir m.a.: „Ríkið verður eigandi félagsins og verður sala þess, slit eða innkoma nýrra sameigenda óheimil án samþykkis Alþingis.“

Það liggur hins vegar algjörlega ljóst fyrir, finnst mér, að eins og frumvarpið er úr garði gert þá er algjörlega opið fyrir það, eins og reyndar segir hér:

„Ríkisútvarpinu sf. er heimilað að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum í samræmi við tilgang þess og efna til samvinnu við aðra aðila, sbr. 2. mgr. 3. gr., 5. gr. og 6. gr., þó með fyrirvara um fjárhagslegan aðskilnað milli slíkrar starfsemi og aðalstarfseminnar …“

Ég les þetta þannig, hæstv. forseti, og óska eftir að ráðherra leiðrétti mig ef ég hef misskilið það, að salan sé í raun og veru óheimil nema, eins og segir hér, að Alþingi samþykki, en stjórn stofnunarinnar geti í raun og veru breytt rekstrarformi verulega, m.a. með því að leigja út starfsemi ákveðinna rása, t.d. Rásar 2 eða svæðisútvarpanna, svo eitthvað sé nefnt.

Út af fyrir sig er ég ekkert að hafna slíkum möguleikum, ég vil taka það fram. Ég spyr bara hvað menn séu að segja og hvað menn séu að hugsa þegar þeir segja þetta. Mér finnst alveg hægt að ræða það í sjálfu sér að einhver hluti af t.d. dagskrá Rásar 2 væri leigður út, að einhverjir tækju að sér að reka hana einhvern tíma dagsins. Það yrði að setja því ákveðnar skorður og annað slíkt og gera ákveðna samninga. Ég hafna því ekki fyrir fram. Ég tel hins vegar að Rás 1 eigi að vera almannaútvarp og eigi að starfa sem slíkt og að svæðisútvörpin þurfi að halda velli á vegum Ríkisútvarpsins. Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt og eðlilegt að svo verði. En mér sýnist að eins og þetta er sett fram í frumvarpinu megi hugsanlega vera sérrekstur um eitt og annað að því gefnu að það sé ekki í söluformi heldur leiguformi eða rekstrarformi eða öðru skipulagsformi.

Ég spyr um þetta, hæstv. forseti, og óska eftir svörum ráðherra um hvað verið er að tala. Er verið að tala um hluta af dagskrá á einhverri rás eða um hluta af starfsemi Rásar 2 eða um hvað er yfirleitt verið að tala þegar þessu er velt upp með þessum hætti? Þetta held ég að nauðsynlegt sé að fá upplýst í umræðunni, virðulegur forseti.