131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[14:14]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þarna kemur fram í afstöðu hv. þingmanns efnahagsstefna Samfylkingarinnar sem byggir á því að ekki sé skynsamlegt að taka nokkurt tillit til aðstæðna í samfélaginu, það skuli vaða fram án tillits til þeirra aðstæðna sem uppi eru. Það er alveg ljóst að mikið er um að vera í samfélagi okkar og þess vegna var tekin ákvörðun um að hægja á framkvæmdum í samgöngumálum. Það er í fullkomnu samræmi við það sem helstu ráðgjafar okkar í efnahagsmálum leggja til.

Með sama hætti virðist hv. þingmaður ekki taka eftir því þegar hann talar um niðurskurð að við höfum verið að auka fjármuni og bæta við það sem við leggjum inn í samgöngumannvirki þannig að í raun er ekki um niðurskurð að ræða að öðru leyti en því að við höfðum gert ráð fyrir því í okkar (Forseti hringir.) samgönguáætlunum að ýtrustu óskir okkar stæðu til þess að framkvæma (Forseti hringir.) fyrir tilteknar upphæðir en við höfum orðið að hægja á okkur.